Loftgæðin fara þegar minnkandi

Frá flugeldaskoti í kvöld.
Frá flugeldaskoti í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Loftgæði eru þegar orðin lítil samkvæmt mælistöð við Dalsmára í Kópavogi og við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði og er staðan þar sögð slæm samkvæmt vef Umhverfisstofnunar Loftgæði.is.Ástæðan er svifryk en þegar er farið að skjóta talsverðu upp af flugeldum á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er staðan enn merkt góð eða mjög góð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar flugeldaskot íbúa höfuðborgarsvæðisins ná hámarki er viðbúið að staðan versni til muna vegna mengunar frá flugeldum og þannig verði staðan áfram fyrstu klukkustundir nýja ársins.

Miðað við fyrstu klukkustundir ársins sem er að líða var styrkur svifryks hár nær allan sólarhringinn 1. janúar 2018 en venjulega fellur styrkurinn hratt þegar líða tekur á nýársnótt að því er segir á vef Reykjavíkurborgar. Hvetur borgin fólk til þess að fara varlega og ganga rétt frá flugeldarusli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert