„Maður getur ekki gert öllum til geðs“

Handritshöfundar áramótaskaupsins árið 2018.
Handritshöfundar áramótaskaupsins árið 2018. Mynd/mbl.is

„Það verður auðvitað að vera eitthvert bit [í áramótaskaupinu] en svo er auðvitað alltaf einhver lína. Stundum er erfitt að finna þessa línu og maður getur ekki gert öllum til geðs,“ segir Ilmur Kristjánsdóttir, leikkona og ein af handritshöfundum áramótaskaupsins, í samtali við mbl.is.

Landsmenn hafa ávallt sterkar skoðanir á gæðum áramótaskaupsins hverju sinni og það breyttist ekki í ár. Landinn virðist þó vera nokkuð ánægður með skaupið í þetta sinn en auðvitað eru ekki allir sammála.

Reyndu að gæta jafnvægis og sanngirni

Ilmur sjálf segist vera „mjög sátt“ við lokaútkomuna og handritshöfundar hafi lagt mikið á sig við að gæta jafnvægis og sanngirni.

„Við mátum það þannig að við værum ekki að gera einhverjum hátt undir höfði og við reyndum að vera hlutlaus. Við vorum sex handritshöfundar og höfðum örugglega misjafnar skoðanir og gátum dempað hvert annað,“ segir Ilmur og heldur áfram:

„Þannig að ég held að það hafi verið jafnvægi. Við pössuðum okkur á að það hallaði ekki um of á einhvern einn aðila. Aðalmálið þegar maður leggur upp í svona ferðalag er að maður reynir að vera fyndinn. Maður reynir að finna eitthvað sem er spaugilegt. Svo finnst sumum ekki nógu mikil pólitík og sumum ekki nógu mikið af öðru.“

Ilmur Kristjánsdóttir leikkona og einn af handritshöfundum skaupsins.
Ilmur Kristjánsdóttir leikkona og einn af handritshöfundum skaupsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðkirkjan verður að taka gagnrýni

Fréttastofu mbl.is bárust ábendingar um að einhverjum meðlimum íslensku þjóðkirkjunnar hefði blöskrað atriði í skaupinu sem fjölluðu um kirkjuna. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagðist, í samtali við mbl.is fyrr í kvöld, líta á þetta sem skaup en ekki sem alvöru og ekki sem sagnfræði.

Spurð hvort hún hefði heyrt af óánægju vegna ádeilu á þjóðkirkjuna sem birtist í skaupinu sagði Ilmur: „Ég hef ekkert heyrt af því en ég get alveg ímyndað mér að fólk sé móðgað. Það er stundum erfitt að taka gagnrýni.“

Ilmur segir krefjandi að finna línuna milli þess að búa til gott og beitt grín og þess að fara yfir strikið. „Maður þarf að hafa eitthvað að segja líka.

Það er búið að gagnrýna þjóðkirkjuna í ár, út af fagráðinu [um meðferð kynferðisbrota] og út af þessum sáttafundum biskups. Auðvitað verður þjóðkirkjan líka að kunna taka þessu.

Það er líka kannski verið að gagnrýna það að hún er á rosalegum stalli og verður að geta tekið gagnrýni eins og stjórnmálamenn eða aðrir í opinberum störfum,“ bætir Ilmur við en hún hafði lítið fylgst með gagnrýni á skaupið í dag þar sem hún var önnum kafin við að halda barnaafmæli.

Sveppi sem „gimp“

Það voru nokkur atriði sem klippt voru út úr lokaútgáfu skaupsins sem landsmenn fengu að sjá í gær. Ilmur segir að þau hafi ekki endilega verið talin of gróf til sýningar heldur að skaupið hafi verið of langt og einhverju hafi þurft að sleppa. Þá hafi nokkur atriði ekki þótt nógu fyndin.

„Það sem ég vissi að yrði umdeilt og kannski viðkvæmt var auðvitað þjóðkirkjan og það var Katrín Jakobsdóttir og Orka náttúrunnar. Það var allt saman inni,“ segir Ilmur.

Sem dæmi um atriði sem komst ekki í lokaútgáfu skaupsins nefnir Ilmur atriði sem tengist Hjálparsveit skáta en eins og áhorfendur muna var eitt atriði í skaupinu um hjálparsveitina þar sem Sverrir Þór Sverrisson beraði á sér afturendann.

„Hann var reyndar svolítið fyndinn sá skets en hann fór ekki inn. Það þótti of mikið að vera með tvo því það virtust ekki allir vita um hvað væri verið að fjalla. Það var alls ekki af því að hann væri of grófur. Það var mjög fyndið, þá leikur Sveppi svona gimp sem finnur útlendinga,“ segir Ilmur flissandi að lokum.

Sveppi í hlutverki sínu sem meðlimur í Hjálparsveit skáta. Annað …
Sveppi í hlutverki sínu sem meðlimur í Hjálparsveit skáta. Annað atriði með honum í sama hlutverki en þá klæddur sem „gimp“ náði ekki í lokaútgáfuna. Skjáskot/RÚV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert