Íslandspóstur afskráði ePóst án samþykkis

Íslandspóstur fékk ekki samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en ePóstur, dótturfyrirtæki þess, …
Íslandspóstur fékk ekki samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en ePóstur, dótturfyrirtæki þess, var innlimað í móðurfélagið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandspóstur ohf. afskráði ePóst, dótturfyrirtæki sitt, 13. desember síðastliðinn án samþykkis Samkeppniseftirlitsins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir jafnframt að eftirlitið eigi eftir að taka afstöðu til þess hvort um brot gegn sátt frá árinu 2017 sé að ræða.

Fjallað var um ePóst í desember þegar greint var frá því að Íslandspóstur lánaði félaginu um 300 milljónir króna en lét lánin ekki bera vexti. Í sátt sem Íslandspóstur gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017 segir að reikna skuli vexti á lánin en það hyggst Íslandspóstur ekki gera.

Í frétt Fréttablaðsins segir að ef lánin séu látin bera markaðsvexti megi reikna með að tap Íslandspósts af ePósti nemi hátt í hálfum milljarði króna. Samruni félaganna var ákveðinn síðasta sumar en eftirlitsaðilum með sáttinni ekki tilkynnt um samrunann fyrr en fjórum mánuðum síðar.

Segja Íslandspóst þverbrjóta sátt við samkeppnisyfirvöld

Félag atvinnurekenda hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttarinnar þar sem segir að Íslandspóstur haldi áfram að „þverbrjóta sátt sína við samkeppnisyfirvöld með grófum hætti“. 

Haft er eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda (FA), að málið sé með miklum ólíkindum. „Íslandspóstur telur sáttina við Samkeppniseftirlitið augljóslega lítils virði. Það vekur furðu okkar hversu svifaseint eftirlitið með fyrirtækinu er af hálfu samkeppnisyfirvalda. Augljós brot liggja í augum uppi - það þarf ekki annað en að kunna að lesa til að átta sig á því.“

Þá segir hann að forsvarsmenn Íslandspósts séu jafnframt uppvísir að ósannindum um samskipti sín við samkeppnisyfirvöld en viðbrögð eftirlitsnefndarinnar og Samkeppniseftirlitsins láti á sér standa. „Eftirlitsnefndin var 18 mánuði að svara annarri kæru FA vegna sáttarinnar, sem sneri að sendibílaþjónustu Póstsins. Það væri fáránlegt ef það tæki samkeppnisyfirvöld jafnlangan tíma að bregðast við í þessu máli,“ segir í tilkynningu FA.

Ólafur segir að með því að koma sér hjá því að reikna vexti á lán ePósts hafi Íslandspóstur falið hið raunverulega tap á fyrirtækinu, sem sé nálægt hálfum milljarði króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert