Bráðabirgðaniðurstöður krufninga liggja fyrir

Land Cruiser-jeppinn keyrði fram af brúnni Súlu yfir Núpsvötn 27. …
Land Cruiser-jeppinn keyrði fram af brúnni Súlu yfir Núpsvötn 27. desember. mbl.is/Sigurður Gunnarsson

Rannsókn á banaslysinu á brúnni Súlu yfir Núpsvötn þar sem tvær konur og eitt ungt barn létust stendur enn yfir. Bráðabirgðaniðurstöður réttarkrufninga liggja fyrir en rannsókn á bílnum stendur enn yfir.

„Bráðabirgðaniðurstöður krufninga liggja fyrir en ekkert í þeim sem varpar ljósi á málsatvik,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. Síðan eru á bilinu fjórar til sex vikur sem tekur að gera skýrslu með þeim rannsóknum sem gerðar eru samhliða krufningunum.

Lögregla hefur tekið skýrslu af bæði ökumanni bílsins og bróður hans. Ökumaðurinn man ekki eftir slysinu en bróðir hans gat gefið lögreglu greinargóðar upplýsingar um atburðarásina.

Rannsókn lögreglu á Toyota Land Cruiser-jeppanum stendur enn yfir og þá hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa sömuleiðis verið að rannsaka hann sem hluta af sinni rannsókn.

„Það er í raun óbreytt staða hjá okkur. Við erum að vinna í því að skoða umhverfið, veginn og bílinn – við erum ekki komnir með niðurstöðu úr því, afla gagna frá Vegagerðinni varðandi hönnun á þessu og annað. Þetta tekur allt tíma,“ segir Brynjar Stefánsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa í samtali við mbl.is.

Hann bætir því við að gagnaöflun á vettvangi sé lokið í bili en þó geti rannsóknin þróast þannig að rannsóknarnefndin þurfi að fara aftur á slysstað.

Fara til Bretlands á morgun

Bræðurnir tveir og börnin sem lifðu af slysið eru ferðafær og munu fara heim til Bretlands á morgun samkvæmt upplýsingum sem Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi hefur frá einum fjölskyldumeðlim þeirra.

Komið hefur fram að ökumaðurinn sé með stöðu grunað manns en ekki hafi verið farið fram á farbann yfir honum. Spurður hvort að hann telji að það muni hugsanlega hamla rannsókn málsins að ökumaðurinn sé á leiðinni til Bretlands og muni dvelja þar framvegis sagði Oddur: „Hans ástand og þörf fyrir læknisaðstoð verður að hafa forgang.“

Fréttin var uppfærð klukkan 15:08.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert