Kann að hafa valdið slysinu

mbl.is/Sigurður Gunnarsson

„Það að einhver hafi réttarstöðu grunaðs manns segir í rauninni ekkert annað en það að hann kunni að hafa með einhverjum hætti brotið gegn umferðarlögum þannig að hann hafi valdið mannsbana af gáleysi.“

Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is spurður hvort ökumaður jeppabifreiðar, sem fór í gegnum vegrið á brú yfir Núpsvatn á milli jóla og nýárs með þeim afleiðingum að tvær konur og barn létust, sé grunaður um að hafa ekið of hratt miðað við leyfilegan hámarkshraða, en maðurinn hefur réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á málinu.

Hvort ökumaðurinn hafi keyrt of hratt, hann hafi keyrt ógætilega, hvort ökutæki hafi ekki verið í lagi eða annað slíkt væri hins vegar einfaldlega til rannsóknar hjá lögreglunni. „Þetta eru bara þættir sem eru til rannsóknar,“ segir Oddur. Hins vegar hefði þegar komið fram að ökumaðurinn hafi ekki verið ölvaður. Blóðsýni hefði staðfest það.

Spurður hvort fólkið sem í bifreiðinni var hafi verið í bílbeltum segir Oddur liggja fyrir að hluti þess hafi verið í bílbeltum og hluti þess ekki. Það sé að öðru leyti einnig til rannsóknar. „Það á eftir að rannsaka ökutækið með tilliti til þess hvort belti hafi verið notuð. Það sést líka við krufningu hvort áverkar séu eftir belti. Það er bara til rannsóknar.“

mbl.is