Var alltaf með riffilinn

Guðjón ásamt hersveit sinni í svokölluðum Rex-túr. Alls var 300 …
Guðjón ásamt hersveit sinni í svokölluðum Rex-túr. Alls var 300 hermönnum skipt í álíka sveitir. Guðjón er hér þriðji frá hægri í neðri röðinni. Hann segir stærstu áskorunina í hernum hafa verið Rex-túrinn Ljósmynd/Militærphoto DK

„Ég var í námi í Danmörku sem höfðaði ekki nægilega til mín. Ég átti félaga sem hafði verið í þessu og svo komu menn sem voru að kynna nám innan danska hersins og þá ákvað ég að prufa þetta, fékk einhverja ævintýraþrá eftir að hafa talað við þá,“ segir Guðjón Gíslason, slökkviliðsmaður og fyrrverandi liðsmaður lífvarðarsveitar Danadrottningar. Guðjón gekk í danska herinn árið 2015 og gegndi þar herþjónustu í átta mánuði.

„Fyrstu fjórir mánuðirnir fóru í grunnþjálfun og að læra alls kyns hertækni. Hinir fjórir fóru í þá skyldu að verja drottninguna, fjölskyldu hennar og allt sem þeim tilheyrði eins og hallirnar og annað sem heyrir undir dönsku krúnuna. Við vorum alltaf mjög nálægt henni.“

Þjálfunin hefur komið sér vel

Guðjón segir það hafa verið einkennilega tilfinningu fyrir Íslending að búa á herstöð og hefja vopnaþjálfun. „Já, það var það, en þetta var mjög spennandi og skemmtilegt. Við fengum riffilinn eftir þrjá daga og vorum alltaf með hann. Þegar við vorum með drottningunni var alltaf kúla í hlaupi.“

Á þeim tíma sem Guðjón þjónaði í varðsveit drottningarinnar segist hann hafa þurft að grípa inn í óæskilegar aðstæður þó nokkrum sinnum.

„En við hleyptum aldrei af, vopnum hefur ekki verið beitt í Amalíuborg síðan í seinni heimsstyrjöld.“

Guðjón starfar hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í dag og segir þá þjálfun sem hann hlaut hjá danska hernum hafa komið sér vel í því starfi.

„Í herskyldunni lærum við að vinna undir miklu álagi. Þetta er kannski ekki alveg eins og í bíómyndunum en það er samt virkilega verið að prófa álagið á þér. Við vöknuðum klukkan fimm á morgnana, þurftum þá að þrífa herbergin og svo var farið yfir þau og svona.“

Hersveitirnar kepptust við að komast sem fyrst á milli sérstakra …
Hersveitirnar kepptust við að komast sem fyrst á milli sérstakra stöðva og þurftu að klára ýmis verkefni þess á milli. Hér má sjá Guðjón á skotæfingu, en meðal annarra verkefna voru skyndihjálp og hindrunarhlaup Ljósmynd/Militærphoto DK

Sváfu tvo tíma á sólarhring

Guðjón segir stærstu áskorunina í hernum hafa verið hinn svokallaða Rex-túr, sem er hálfgert lokapróf sem hann þreytti í lok grunnþjálfunarinnar áður en hann hóf þjónustu hjá drottningunni.

„Þetta tók fimm daga. Fyrsti dagurinn var mjög erfiður andlega. Það var verið að prófa mann mikið. Við borðuðum um það bil 300 kaloríur á dag og sváfum í tvo tíma á sólarhring. Við gengum á fjórum dögum 160 kílómetra. Við þurftum að bera allt með okkur; bakpoka sem var 30 kíló, riffillinn var sjö kíló og vestið sem ég var í 12 kíló. Þetta voru örugglega alveg góð 50 kíló sem við bárum með okkur allan tímann,“ segir Guðjón um Rex-túrinn. „Þetta var sett upp eins og ratleikur og við þurftum að mæta á ákveðna staði klukkan eitthvað ákveðið. Ef við vorum ekki mættir á réttum tíma þurftum við að bera yfir á næsta stað skriðdrekajarðsprengjur sem eru mjög þungar. Ef við vorum ekki síðastir fengum við annaðhvort ekki neitt eða eina Coca Cola-dós.“

Aðspurður hvort það hafi nokkurn tímann hvarflað að honum að hætta segir Guðjón að það hafi aldrei verið möguleiki.

„Það voru mjög margir sem vildu gefast upp en við vorum heild og það var enginn sterkari en veikasti hlekkurinn svo það fékk enginn að gefast upp. Við hjálpuðumst að til að allir kæmust í gegnum þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert