Snældan er orðin svöl á ný

Það jók enn útbreiðslu kassettanna þegar vasadiskóin svokölluðu, sem kölluðust …
Það jók enn útbreiðslu kassettanna þegar vasadiskóin svokölluðu, sem kölluðust Walkman á ensku, komu á markað. Thinkstock/Getty Images

Mörgum að óvörum nýtur hún hylli að nýju aftur eftir nokkurra áratuga hlé. Þeim yngri þykir hún svöl, þeir sem eldri eru fyllast fortíðarþrá. Sú sem er svona vinsæl er kassettan sem sumir vilja kalla snældu, en í Bandaríkjunum jókst sala á kassettum með átekinni tónlist um tæp 19% á síðasta ári.

„Það er vegna þess að þetta þykir svo svalt,“ segir dr. Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur um tónlist. „Hipsterarnir eru búnir að koma kassettunni aftur á kortið. Þetta hefði manni ekki dottið í hug að myndi gerast í vestrænum tónlistarheimi.“

Og hún er svo sannarlega komin aftur á kortið, kassettan. Á vefsíðu Grammy-tónlistarverðlaunanna er fjallað um þessa þróun mála og þar segir að sala á kassettum hafi meira en fjórfaldast undanfarin átta ár og að verslanir, sem þykir flottar og smart, selji nú kassettutæki í bílförmum. Í nýrri skýrslu Buzz Angle, sem heldur utan um upplýsingar um tónlistariðnaðinn vestanhafs, kemur fram að árið 2017 hafi selst rúmlega 99 þúsund áteknar kassettur í Bandaríkjunum og í fyrra hafi salan verið 118.200 kassettur og nemur aukningin 18,9%.

Arnar Eggert Thoroddsen.
Arnar Eggert Thoroddsen. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Arnar Eggert segir að endurreisn kassettunnar hafi byrjað fyrir um fimm árum, nokkrum árum eftir að áþekk þróun varð með vínilplöturnar sem fengu aftur sinn sess eftir nokkurra áratuga tímabil þar sem fáir tónlistarmenn gáfu tónlist sína út í því formi. „Kassettan var nánast gleymt form. Það er ekki tæknin eða þægindin sem fólk er að sækjast eftir þegar það velur kassettu,“ segir hann. „Sumir vilja hráan hljóm og margir voru aldrei sáttir við geisladiskana; fannst þeir vera of „sterílir“. Áður fyrr miðaði öll þróun í miðlun tónlistar að því að koma henni á sem þægilegastan hátt í eyrun okkar, núna eru aðferðirnar sem slíkar farnar að fela í sér alls konar merkingu.“

Þekktir gefa út kassettur

Að sögn Arnars Eggerts var kassettan áður sú aðferð sem neðanjarðarbönd og minna þekktir tónlistarmenn notuðu gjarnan til að koma tónlist sinni á framfæri. „Þetta var langódýrasta formið, þetta var fljótunnið tæknilega séð og umslögin inni í kassettuhylkinu voru oft ljósrituð til að spara. Í dag þykir það listrænt og svalt. Núna eru tónlistarmenn ekki að nota þetta til að koma sér á framfæri, það er meira um að þeir sem eru þekktir og vinsælir gefi út takmarkaðan fjölda af kassettum og það verða þá safngripir. Svo er þetta algengt hjá svartþungarokkssveitum.“

Tekið upp úr útvarpinu

Sjálfur segist Arnar Eggert ekki hlusta á kassettur og að það sé m.a. vegna þess að hann eigi ekkert kassettutæki.

Margir þeirra sem voru unglingar á 9. áratugnum og fyrr muna eftir því að hafa tekið tónlist úr útvarpinu upp á kassettur. „Ég veit ekki til þess að fólk sé mikið að stunda það, enda margar auðveldari leiðir til að nálgast tónlist og deila henni,“ svarar Arnar Eggert spurður um hvort fortíðarþráin sé farin að ganga alla leið. „En það verður kannski næsta skrefið hjá einhverjum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »