Vetur konungur er væntanlegur með kólnandi veður

mbl.is/​Hari

Horfur eru á kólnandi veðri, að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Það eru mikil umskipti frá hlýjustu janúarbyrjun það sem af er öldinni.

Í dag gæti orðið slydda og jafnvel snjókoma í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins. Horfur eru á hvassviðri og jafnvel stormi á Vestfjörðum og við Breiðafjörð og dálitlum éljum í kvöld, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Á morgun eykst frostið og er útlit fyrir að sunnudagurinn verði fremur kaldur um mest allt land. Eftir helgina er væntanleg lægð sem verður mun kaldari en þær sem hingað hafa komið undanfarið. Úrkoman gæti orðið slydda og jafnvel rigning seinnipart mánudags syðst á landinu, ef spáin gengur eftir. Í kjölfar lægðarinnar kólnar strax aftur og lítur út fyrir að frostið herði á miðvikudag en svo dragi úr því á fimmtudag.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir, að útlit sé fyrir vetrarlegra veður á landinu en hafi verið í janúar, en það gengur í norðaustanátt í dag með snjókomu eða éljum í flestum landshlutum, en slyddu með suðurströndinna. Norðaustlæg átt 8-15 m/s upp úr hádegi, hvassast norðantil. Bætir heldur í vind þegar líður á daginn, hvassviðri eða jafnvel stormur um landið norðvestanvert og él, en heldur hægari vindur og snjókoma um landið norðaustanvert og má því búast við lélegu skyggni á þeim slóðum og vetrarfærð. Einnig má búast við snjómuggu sunnantil á landinu þó þar verði mun hægari vindur. Dregur úr vindi og ofankomu í nótt og á morgun og birtir víða til.

Veðurvefur mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »