Ekki stór skref, en í rétta átt

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir skrefin ekki stór en þó …
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir skrefin ekki stór en þó þokist kjaraviðræður í rétta átt. Ljósmynd/Aðsend

„Það verða margir fundir í undirhópum í dag,“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, um kjaraviðræður aðildarfélaga sambandsins. „Það er verið að funda í málefnum ræstingafólks og mötuneytisstarfsfólks og eins ætlum við að funda um nýja launatöflu og reyna að þoka þessum málum áfram,“ bætir hann við. „Við munum þó ekki skrifa undir kjarasamning í dag.“

Fundað var í undirhópum í gær og fundirnir sem haldnir verða í dag eru allir með Samtökum atvinnulífsins. „Við erum að reyna að þoka þessum málum áfram eins og við getum í dag og á morgun,“ segir Flosi.

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri sín skoðun að ágætisgangur væri í kjaraviðræðum, en SA fundaði þann dag með Landssambandi verslunarmanna og Landssambandi iðnaðarmanna.  

„Mér finnst ágæt­is­gang­ur í viðræðunum og það er það sem mestu skipt­ir. Við erum að ræða al­var­leg úr­lausn­ar­efni,“ sagði Halldór Benjamín.

Flosi segir það einnig sína skoðun að kjaraviðræður stefni í rétta átt. „Það eru ekki stór skref, en þau eru í rétta átt, sem er gott. Við ætlum að reyna að halda þessum dampi og þessari vinnu áfram á meðan við sjáum að þetta er að þokast í rétta átt.“

mbl.is