Tekjuþróun allra landsmanna birt

Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson kynntu vefinn …
Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson kynntu vefinn fyrir fréttamönnum í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöldum verður nú kleift að meta áhrif breytinga á sköttum og bótum á lífskjör einstakra hópa með nýjum gagnagrunni sem byggir á skattframtölum allra Íslendinga.

Vefurinn tekjusagan.is veitir aðgengi að ópersónugreinanlegum upplýsingum um lífskjör Íslendinga og byggja upplýsingar á skattframtölum allra einstaklinga á landinu frá 1991 til ársins 2017.

Jafnframt er almenningi gert kleift að skoða þróun á þessum árum og slá inn eigin upplýsingar til þess að vita hvaða tekjutíund viðkomandi tilheyrir. Þar með getur hver einstaklingur borið eigin lífskjaraþróun saman við þróun annarra á sama tíma.

Nýr gagnagrunnur stjórnvalda um lífskjaraþróun Íslendinga frá 1991 til 2017 …
Nýr gagnagrunnur stjórnvalda um lífskjaraþróun Íslendinga frá 1991 til 2017 var kynntur í dag og á hann að aðstoða stjórnvöld við að meta áhrif breytinga í skatt- og bótakerfi. Skjáskot

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti gagnagrunninn um þróun lífskjara á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Undir heitinu Lífshlaupið er hægt að skoða þróun atvinnutekna tekjutíunda eftir aldri og kyni. Hægt er að skoða hreyfanleika einstaklinga milli tekjutíunda yfir tímabilið.

Þannig má til að mynda sjá að 33,5% allra einstaklinga sem voru í efstu tekjutíund árið 1991 og voru á aldrinum 25 til 29 ára voru enn í þeirri tekjutíund árið 2017 þegar þessir einstaklingar voru 50 til 54 ára, restin lækkaði hins vegar um tíund.

Aðeins 14,4% af þeim sem voru í sama aldurshópi í neðstu tekjutíund árið 1991 voru það líka árið 2017. 7,4% þeirra eru nú í efstu tekjutíund.

Skjáskot

Upplýsingar um mánaðarlegar ráðstöfunartekjur er að finna í Launaumslaginu og er þar hægt að greina tekjur fólks eftir tekjutíund, aldri, búsetu, hjúskaparstöðu, barneignum og hvort fólk sé á leigumarkaði eða í eigin húsnæði.

Á grundvelli þess vals sem um ræðir er hægt að sjá þróun atvinnutekna, lífeyristekna, bóta frá ríki og sveitarfélögum, barnabóta, vaxtabóta, tekjuskatts og fasteignaskatts árin 1991 til 2017.

Þannig má sjá þróun mánaðarlegra ráðstöfunartekna á föstu verðlagi 2017 hjá hjónum eða fólki í sambúð úr fimmtu tekjutíund á aldrinum 25 til 64 ára með 1 til 2 börn sem eiga húsnæði og á landinu öllu. Þar sést bersýnilega að ráðstöfunartekjur hópsins hafa hækkað til muna frá árinu 2012.

Þá hafa atvinnutekjur hækkað undanfarin ár ásamt bótum frá sveitarfélagi og ríki, en lífeyrissjóðstekjur hafa lækkað ásamt barnabótum, vaxtabótum, tekjuskatti og fasteignaskatti.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Skjáskot
mbl.is