Unglingar á hálum ís

Myndin var tekin fyrr í dag þegar lögreglumenn höfðu afskipti …
Myndin var tekin fyrr í dag þegar lögreglumenn höfðu afskipti af unglinum við leik á ísnum. Ljósmynd/Lögreglan á Vestfjörðum

Lögreglan á Vestfjörðum hafði í dag afskipti af unglingum við leik á ísilögðum Pollinum í Skutulsfirði. Henni þykir rétt að minna á hættuna sem getur skapast við leik á hafís.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum.

Þar segir að mikilvægt sé að foreldrar vari börn og unglinga við því að vera að leik á ótraustum ísnum, það þurfi vart að ræða hvaða afleiðingar það geti haft í för með sér falli þau í gegnum þunnt íslagið.

„Verði einhver þó fyrir því óhappi að falla í gegnum ís er gott að hafa í huga þessi ráð sem Miðstöð slysavarna barna bendir á:

- Snúa þér að bakkanum og halla þér að ísnum.
- Teygja hendurnar upp á ísinn og sparka.
- Ekki standa upp þegar þú kemst upp á á ísinn. Liggðu á ísnum og rúllaðu þér frá gatinu.
- Aðstandendur ættu ekki að hlaupa út á ísinn því þá brotnar hann enn meir og þeir detta líka í vatnið.
- Ef sá sem dettur kemst ekki upp úr vatninu án aðstoðar, skal kasta til hans reipi, stöng eða trjágrein og toga hann upp úr.

Aðilar kólna hratt sem falla í vatnið þegar kalt er í veðri og þarf því tafarlaust að hafa samband við Neyðarlínu og óska eftir aðstoð,“ segir í færslunni.

mbl.is