Nægur snjór í Bláfjöllum eftir helgina

Mikið var um lausasnjó í brekkunum í síðustu viku.
Mikið var um lausasnjó í brekkunum í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er allt að koma,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, en þar er stefnt að opnun skíðasvæða á miðvikudag eða fimmtudag.

„Það er ótrúlega fallegt hérna hjá okkur. Það snjóaði nóg um helgina og svo kom veruleg gusa í nótt. Í kvöld og í nótt á að halda áfram að snjóa svo við stefnum á að opna, að minnsta kosti hluta svæðisins, í vikunni.“

Mikill lausasnjór var í brekkunum í síðustu viku og segir Einar að snjókoman á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags hafi bleytt mikið upp í snjónum sem fyrir var. „Það hjálpaði okkur gríðarlega við að fá þéttari snjó.“

Fari allt að óskum verður hægt að opna á miðvikudag. „Við erum með bjartsýnni mönnum eins og venjulega, það þýðir ekki annað í þessu starfi,“ segir Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert