Ákærður fyrir hrottalega árás á Akureyri

Árásin átti sér stað við útibú Arion banka við Geislagötu …
Árásin átti sér stað við útibú Arion banka við Geislagötu á Akureyri 3. nóvember síðastliðinn. Skapti Hallgrímsson

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og vopnalagabrot, fyrir að hafa stungið annan mann ítrekað í höfuð og búk fyrir utan Arion banka á Akureyri 3. nóvember síðastliðinn. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands á fimmtudag.

Fórnarlamb árásarinnar hlaut tíu skurðsár og tvö aðskilin höfuðkúpubrot, en auk þess að stinga manninn með hnífi sló ákærði manninn og sparkaði í hann. Blóðugur hnífur fannst á dvalarstað mannsins, sem var handtekinn skömmu eftir árásina og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan þá.

Bergur Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Akureyri, sagði við mbl.is undir lok nóvember að heppni væri að ekki hefði farið enn verr.

Sá sem fyrir árásinni varð krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 5,2 milljónir króna í skaðabætur, en maðurinn hlaut djúpa skurði á höfði, meðal annars 7-8 sentimetra langan skurð aftanvert og neðan við vinstra kjálkabarð, sem skar í sundur munnvatnskirtil og að hluta í sundur kjálkavöðva, auk þess að valda slagæðablæðingu.

Þá var annar svipað langur skurður um vinstra gagnauga í hársverði, sem náði alveg inn að beini, auk átta minni skurðsára bæði í andliti, á búk og í hársverði.

Fréttablaðið greindi fyrst frá ákæru í málinu og hefur eftir Guðmundi St. Ragnarssyni, réttargæslumanni fórnarlambsins, að skjólstæðingur hans muni alltaf bera ör eftir árásina og að það muni taka hann langan tíma að vinna úr því sálræna áfalli sem hann varð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert