Skutu föstum skotum á forseta þingsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi í dag. Skjáskot af vef Alþingis

Tveir viðbótarvaraforsetar voru kosnir inn í forsætisnefnd Alþingis í dag en verkefni þeirra verður að fjalla um Klaustursmálið og koma málinu í viðeigandi farveg. Þingmenn Miðflokksins gagnrýndu þingforseta harðlega.

Steinunn Þóra Árnadóttir, úr VG, og Haraldur Benediktsson, úr Sjálfstæðisflokknum, voru kosin en farið var eftir því að þingmenn væru óumdeilanlega hæfir til umfjöllunar um málið og hefðu hvorki tjáð sig um það í ræðu eða riti þannig að það orkaði tvímælis.

Heitar umræður sköpuðust um fundarstjórn forseta þar sem þingmenn Miðflokksins gagnrýndu Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, harðlega vegna málsmeðferðar hans.

Jón Þór Þorvaldsson, þingmaður Miðflokksins, sagði meðal annars að réttarríkið væri undir í þessu máli. „Þetta er sorglegt,“ sagði Jón Þór.

Anna Kolbrún Árnadóttir, ein þeirra sex sem sat á Klaustri 20. nóvember, sagði að verið væri að fylgja vanhæfum forseta í máli sem ekki eigi sér lagastoð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom nokkrum sinnum upp í pontu og sagði meðal annars að forseti þingsins væri að leita undanþágu frá lögum til að halda málinu áfram. Hann sagði aðferð forseta þingsins ekki standast lög eða stjórnarskrá. 

„Forseti Alþingis er að kalla yfir Alþingi þvílíka smán og niðurlægingu,“ sagði Ólafur Ísleifsson, einn sexmenninganna af Klaustri.

Steingrímur J. Sigfússon sagði um miðjan mánuðinn að þetta væri hefðbundin leið þegar leyst væri úr hæfisvanda. 

mbl.is