„Við erum ekki á þingi fyrir þetta fólk“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni, …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gengur frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, eftir að hafa átt við hann orðastað í morgun. mbl.is/​Hari

„Við ákváðum að snúa aftur á Alþingi í dag vegna þess hvernig þessi mál hafa verið að þróast eins og fram kemur í yfirlýsingum okkar. Þar af leiðandi gerist þetta býsna hratt. Margir hafa tekið vel á móti okkur en eðlilega eru ekkert allir ánægðir með að fá okkur til baka. En við erum ekki á þingi fyrir þetta fólk. Við erum þar vegna þeirra sem kusu okkur á þing. Við erum á þingi til þess að vinna fyrir þá og það ætlum við að gera.“

Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is en þeir Bergþór Ólason, samflokksmaður hans, sneru aftur á Alþingi í dag eftir að hafa tekið sér leyfi frá þingstörfum í tæpa tvo mánuði í kjölfar svokallaðs Klaustursmáls sem kom upp í lok nóvember á síðasta ári. Gunnar Bragi segir aðspurður að hugmyndin hefði verið að vera lengur í leyfi en hvernig málið hefði þróast hefði hins vegar orðið til að breyta því.

Lilja ræddi í tvígang við Gunnar Braga

Vísar hann þar til yfirlýsingar sinnar sem hann sendi frá sér í morgun þar sem segir að vegna vinnubragða Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, varðandi meðferð forsætisnefndar á Klaustursmálinu, eftir að því var vísað til nefndarinnar af hópi þingmanna og umræðu um málið á þingi eftir að það kom saman aftur, hafi orðið til þess að óhjákvæmilegt hafi verið að snúa aftur og geta svarað fyrir sig á þeim vettvangi.

Lilja Dögg ræðir við Gunnar Braga í morgun.
Lilja Dögg ræðir við Gunnar Braga í morgun. mbl.is/​Hari

Ljóst er að viðtökurnar hjá ýmsum þingmönnum í garð Gunnars Braga og Bergþórs hafa verið kaldar. Athygli vakti þegar Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gekk í tvígang úr ráðherrastól sínum og að Gunnari Braga þar sem hann sat í þingsalnum á miðjum þingfundi, sagði eitthvað við hann og gekk síðan í burtu. Í seinna skiptið út úr þingsalnum. Spurður um þetta segir Gunnar Bragi það einungis á milli þeirra.

Ekki hefur náðst í Lilju en í samtali við Ríkisútvarpið segist hún ekki hafa átt von á þeim Gunnari Braga og Bergþóri á Alþingi í dag og að samtal hennar við Gunnar Braga hafi snúist um það. Hún hafi ekki verið sátt við þessa framkomu þeirra.

Hvenær má taka samtal fólks upp?

„Við nýttum þetta leyfi annars mjög vel til þess að hugsa um það sem gerðist og ræða við okkar stuðningsfólk sem í 99,9% tilvika vildi fá okkur inn aftur. Það er fólkið sem við þurfum að svara til. Ekki þeir sem eru inni á þingi. Ég hef beðist fyrirgefningar á því sem gerðist. Hins vegar þarf að komast að því hvort fólk sé almennt sátt við að ólöglegar upptökur séu stundaðar og það sé bara í góðu lagi,“ segir Gunnar Bragi.

Vísar hann þar til upptökunnar á samtali hans, Bergþórs og nokkurra annarra þingmanna á öldurhúsinu Klaustri í nóvember sem varð upphaf málsins. „Hvar eru mörkin á því? Hvenær má taka samtal fólks upp? Væri til dæmis í lagi ef einhver tæki upp okkar samtal ef við sætum einhvers staðar saman bara vegna þess að ég er alþingismaður? Hvar eru mörkin? Þetta mál er einfaldlega miklu stærra en sem nemur bara þessum eina atburði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina