Ósátt við Klaustursþingmenn

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur fólks kom saman á Austurvelli í dag til þess að mótmæla þingmönnunum sem tóku þátt í ósæmilegum umræðum á Klaustri fyrir jól. Fundarstjórn var í höndum Ninnu Körlu Katrínardóttur og til máls tóku þau Snæbjörn Brynjarsson varaþingmaður Pírata og Bára Halldórsdóttir, aðgerðasinni og öryrki. Mbl.is var á staðnum og tók nokkra mótmælendur tali.

Ragnhildur Jóhannsdóttir og Jóhann Torfason.
Ragnhildur Jóhannsdóttir og Jóhann Torfason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum droparnir sem hola steininn“

„Við mættum vegna óbreyttrar stöðu. Það þarf að kalla og hrópa, vonandi hrífur það á endanum en þetta er ekki eðlileg staða. Þetta er ekki í boði,“ segir Ragnhildur Jóhannsdóttir, einn mótmælenda á Klaustursmótmælunum á Austurvelli.

Undir það tekur Jóhann Torfason sem segir það ekki ganga að sitja heima og láta það ganga yfir þjóðina að þingmennirnir sem tóku þátt í umræðum á Klaustur, sem síðar birtust í fjölmiðlum, snúi aftur til þings.

Vilja Klaustursþingmenn ekki aftur á þing

„Mér finnst að þeir eigi allir að víkja sem eiga hlut að máli,“ segir Jóhann og bætir við að þetta hafi ekkert með flokka að gera heldur sé þetta þverpólitískt mál. Ragnhildur segir sér hafa blöskrað að sjá þá Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, snúa aftur til þings. „Maður sá vanlíðanina hjá Lilju. Hvernig henni leið að sjá þessa ofbeldismenn birtast eins og ekkert sé,“ segir hún.

„Það er krafa þjóðarinnar, 90 prósent þjóðarinnar vill að þeir víki. Hvers konar manneskjur eru það sem telja sig vinna fyrir þjóðina en hlusta ekki á hana. Ég ætla að vera bjartsýn, þetta tekur oft svolítinn tíma. Við sáum hvernig fór með Sigmund Davíð um árið, það þurfti töluvert áður en hann steig loksins til hliðar.“

„Við erum droparnir sem hola steininn,“ segir Jóhann.

Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baráttunni haldið áfram uns eitthvað gerist

„Ég er ánægð með fólkið sem mætti og þá skiptir fjöldinn minna máli. Það er skítkalt, sunnudagur og fyrirvarinn var stuttur en samt mætti fullt af fólki,“ segir Bára Halldórsdóttir, sú sem tók upp samtal þingmannanna á Klaustri.

„Við höfum sömu skoðanir og við höfðum 1. desember. Við þurfum meiri úrlausn en þessir menn eru tilbúnir að gefa okkur akkúrat núna,“ segir Bára. Spurð hvort hún hafi trú á því að mótmælin eigi eftir að skila einhverju segir hún að baráttunni verði haldið áfram uns eitthvað gerist.

Spurð hvort hún hyggist leiða baráttuna gegn Klaustursþingmönnunum segist hún ekki hafa orku til þess sem einstaklingur en hún styðji baráttuna alla leið. „Ég berst áfram og sé hvort þeir berji á mér með lögsóknum og slíku. En ég tók þetta upp, ég kom fram og fylgi því eftir.“

Anna María Lind Geirsdóttir.
Anna María Lind Geirsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Get helst ímyndað mér að þeir stingi fingrum í eyrun“

„Okkur ofbjóða starfshættir á Alþingi,“ segir Anna María Lind Geirsdóttir í samtali við mbl.is eftir fundinn. „Það er furðuleg og óþroskuð hegðun þessa fullorðna fólks að segja að enginn hefði vitað af þessu hefði þetta ekki verið tekið upp. Hvað með það?“ segir hún.

Hún gagnrýnir að Klausturþingmennirnir hafi snúið til baka á Alþingi þar sem þeir spurðu hvorki kóng né prest. „Að þeir eigi rétt á að vera hérna af því að þeir voru kjörnir á Alþingi,“ segir Anna María. 

Spurð hvort hún kalli eftir afsögn þingmannanna segir hún þá að minnsta kosti þurfa að gera eitthvað í sínum málum. „Þeir segja bara að þeim þyki þetta leitt. Enginn þeirra hefur sýnt neina iðrun svo ég viti til. Hún er núll,“ segir Anna.

„Ég get helst ímyndað mér að þeir stingi fingrum í eyrun,“ segir Anna spurð hvort hún telji þingmennina sem mótmælt var á Austurvelli í morgun hlusta á skilaboð fundarmanna. „Ég veit ekki hvort þeir hlusti eða ekki, en þetta er það eina sem við getum gert.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina