Pálmatré í Vogabyggð

Sigurtillagan.
Sigurtillagan. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Pálmatré, tillaga þýska listamannsins Karin Sander, bar sigur úr býtum í samkeppninni um útilistaverk í Vogabyggð. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum síðdegis.

Verkið gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja. Að auki lagði dómnefnd til kaup á verki eftir danska listhópinn A Kassen.

Í fréttatilkynningu kemur fram að kallað hafi verið eftir tillögum að verkum sem myndu styrkja þau markmið að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í Vogabyggð og skapa þannig örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa. 

Í deiliskipulagi Vogabyggðar kemur fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Það er í samræmi við stefnu borgaryfirvalda og hluti af samningsmarkmiðum við núverandi lóðahafa á svæðinu. Fjárhæð sem verja á til kaupa á listaverki eða listaverkum nemur 140 milljónum króna og er verkefnið kostað sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðaeigendum í Vogabyggð. 

Alls bárust 13 tillögur í samkeppnina en þær eru allar sýndar á Kjarvalsstöðum til 7. febrúar. 

„Tillagan er óvænt, skemmtileg og djörf. Pálmatrjám er komið fyrir í tveimur sívölum, turnlaga gróðurhúsum sem sett eru niður við jaðar miðlægs torgs við bakka Ketilbjarnarsíkis. Frá þeim stafar hlýja og ljós,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar um sigurtillöguna.

Í dómnefnd sátu Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður dómnefndar, Signý Pálsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri menningarmála hjá Reykjavíkurborg, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands, auk myndlistarmannanna Baldurs Geirs Bragasonar og Ragnhildar Stefánsdóttur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina