Brekkusprettir í spandexi og frosti

Frá brekkusprettskeppninni í fyrra.
Frá brekkusprettskeppninni í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Á föstudagskvöldið fer fram fyrsta hjólreiðamót ársins, en það er RIG – Brekkusprettir-keppnin sem er hluti af Reykjavík international games. Eins og venjan er mun hjólreiðafólk keppast við að spretta upp Skólavörðustíginn með útsláttarfyrirkomulagi og mun einn sigurvegari að lokum standa uppi í karla- og kvennaflokki. Í ár verður bryddað upp á þeirri nýbreytni að hafa aukakeppni um lengsta sprettinn fyrir þá sem falla út fyrir 8 manna úrslit.

Þetta er í sjötta skiptið sem brekkusprettskeppnin hefur verið haldin, en í ár er það Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem sér um skipulagið í samvinnu með Víkingi og hjólreiðafélaginu Tindi. Arnór Barkarson hjá HFR segir í samtali við mbl.is að brekkusprettirnir marki alltaf ákveðin tímamót. Það sé fyrsta hjólamót ársins og þó að flestir stundi á þessum tíma enn æfingar inni gefi keppnin skemmtilegt tækifæri til að komast úr innihjólreiðum út á götuna.

Fjöldi áhorfenda fylgdist með keppninni í fyrra.
Fjöldi áhorfenda fylgdist með keppninni í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Miðað við veðurspána eins og hún liggur fyrir í dag má búast við köldu en stilltu veðri. Arnór segir það fínar aðstæður fyrir mótið, en Skólavörðustígurinn er upphitaður og því geta keppendur tekið þátt á hefðbundnum götuhjólum með grönnum dekkjum án þess að eiga hættu á að fara flatt á hálku, jafnvel þótt flestir séu vanari því að vera á grófari dekkjum og jafnvel negldum á þessum árstíma.

„Þetta lífgar aðeins upp á stemninguna hjá hjólafólki,“ segir Arnór, en keppnin hefur jafnan dregið að talsverðan fjölda áhorfenda. Brautin er aðeins 120 metra löng og nær frá neðsta hluta Skólavörðustígsins upp fyrir Hegningarhúsið og gerir takmarkað umfang keppnisbrautarinnar þetta að einni áhorfendavænstu hjólakeppni ársins. Keppnin hefst klukkan 19:00 og má búast við að henni ljúki um 21:00.

Frá úrslitaeinvígi Rakelar og Hrannar á Skólavörðustígnum í fyrra.
Frá úrslitaeinvígi Rakelar og Hrannar á Skólavörðustígnum í fyrra. Sportmyndir.is

Sigurvegarinn í karlaflokki frá í fyrra, Agnar Örn Sigurðarson, er skráður til leiks og á hann því möguleika á að verja titilinn. Hann kom sannarlega á óvart í fyrra þegar hann sigraði, enda var hann þá aðeins 17 ára og hafði byrjað að keppa í götuhjólreiðum árið áður. Var sigurinn hans fyrsti sigur í fullorðinsflokki. Agnar sigraði Emil Þór Guðmundsson í úrslitarimmunni og var sjónarmun á undan honum.

Emil er einnig skráður í ár, en hann hefur tekið þátt mörg undanfarin ár og er jafnan meðal efstu manna. Þegar þetta er skrifað er bronsverðlaunahafinn frá í fyrra, Helgi Berg Friðþjófsson, ekki skráður, en enn er hægt að skrá sig fram að miðnætti í kvöld.

Í kvennaflokki sigraði Rakel Loga­dótt­ir úr HFR í fyrra. Hún er heldur ekki skráð til keppni enn sem komið er, en hún hefur unnið síðustu tvö ár. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sem hefur síðustu tvö ár verið í öðru sæti, er skráð til leiks og verður spennandi að sjá hvort henni takist að ná titlinum í ár.

Agnar Örn Sigurðarson til vinstri sigraði í brekkusprettskeppni karla í …
Agnar Örn Sigurðarson til vinstri sigraði í brekkusprettskeppni karla í fyrra. Sportmyndir.is

Fyrir þá sem detta úr aðalkeppninni fyrir átta liða úrslit verður sérstök ný keppni í boði sem kallast lengsti spretturinn. Í raun er þar verið að notast við svipað keppnisfyrirkomulag og hefur verið notað í brautarhjólreiðum undir nafninu enska heitinu „the longest lap“. Arnór segir að þetta sé eins og með forsetabikarinn á HM, þarna fái þeir sem detti úr leik annað tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

Ekki er um raunverulega keppnisgrein að ræða heldur hefur þetta verið vinsælt lengi erlendis sem eins konar sýning. Keppnin gengur út á að keppendur mega ekki hjóla fram yfir miðlínu brautarinnar (60 metrar) fyrr en dómari gefur merki. Keppendur mega á þessum tíma ekki heldur snerta jörðina. Dómari mun svo gefa merkið á bilinu 3:01 upp í 4:59 mínútur eftir að keppni hefst og eiga þá keppendur að spretta upp í endamarkið.

Arnór segir að þarna reyni bæði á jafnvægi og ekki síður herkænsku keppenda. Þeir geti annaðhvort farið mjög hægt upp að miðlínunni eða þá farið þangað beint og svo reynt að halda jafnvægi án þess í raun að hreyfast áfram fram að hljóðmerkinu. Segist Arnór mikið hafa velt því fyrir sér hvort margir muni geta haldið út 3 mínútur við þessar aðstæður, en oft og tíðum enda keppendur í kyrrstöðu að reyna að halda jafnvægi áður en spretturinn hefst.

Í miklum kulda getur eitt helsta vandamál hjólreiðafólksins verið að …
Í miklum kulda getur eitt helsta vandamál hjólreiðafólksins verið að halda sér heitu milli spretta. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór segir þetta nýja leið til að bæði gera meira fyrir þá sem detti fljótt út og ekki síður fyrir áhorfendur til að sjá nýja keppni. Segir hann fyrirkomulag aukakeppninnar vera ansi sérstakt sem geti orsakað öðruvísi aðstæður en venjulega á íþróttakeppnum. „Það getur verið gaman að sjá áhorfendur öskra sitt fólk áfram þegar það hreyfist ekki,“ segir hann.

Í fyrra var bein útsending frá keppninni og sýnt frá henni á mbl.is. Mótshaldarar ætla að endurtaka leikinn í samstarfi við GÁP og verður bein útsending á föstudaginn þar sem lýsandi mun segja frá því sem fram fer og útskýra það sem fyrir augu ber fyrir þeim sem þekkja illa til hjólreiðaíþrótta.

Frá keppninni í fyrra.
Frá keppninni í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert