Alvarlegir stunguáverkar sjaldgæfir

Una Jóhannesdóttir deildarlæknir er fyrsti höfundur greinarinnar.
Una Jóhannesdóttir deildarlæknir er fyrsti höfundur greinarinnar. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Marktæk aukning hefur ekki orðið í tíðni alvarlegra stunguáverka hér á landi frá aldamótum og stunguáverkar eru enn fremur tiltölulega sjaldgæfir hér á landi miðað við nágrannalönd. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar íslenskra vísindamanna á alvarlegum stunguáverkum sem birtist í tímaritinu Scandinavian Journal of Trauma, Resuscitation and Emergency Medicine á dögunum.

Fram kemur á vef Háskóla Íslands að rannsóknin nái til 73 einstaklinga sem leggja hafi þurft inn á sjúkrahús eftir áverka með hníf eða sveðju frá 2000 til og með 2015. Fyrir utan þessa 73 einstaklinga voru 15 sem létust vegna stunguáverka áður en þeir náðu á sjúkrahús. Niðurstöðurnar sýna að alvarlegir stunguáverkar eru tiltölulega sjaldgæfir á Íslandi ef miðað er við aðrar vestrænar þjóðir, ekki síst Bandaríkin, Ástralíu og Bretland.

„Einnig kom í ljós að tíðni alvarlegra stunguáverka hefur ekki aukist marktækt á þessu 16 ára tímabili, en leiðrétt var fyrir auknum mannfjölda á rannsóknartímabilinu. Svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst erlendis en þar, eins og hér á landi, er tilfinningin oft sú að stunguáverkum hafi fjölgað og þá ekki síst vegna vaxandi umfjöllunar í fjölmiðlum,“ segir enn fremur en alls voru 90% sjúklinganna í rannsókninni karlar og meðalaldur tæp 33 ár.

Langflest tilfellin snerust um árás og þá oftast á heimili fórnarlambsins eða í 55% tilvika eða úti á götu (32%). Rannsóknin þykir undirstrika góðan árangur af meðferð mikið slasaðra sjúklinga hér á landi. Þeir sem stóðu að rannsókninni eru allir læknar á Landspítala. Una Jóhannesdóttir deildarlæknir er fyrsti höfundur að greininni sem Brynjólfur Mogensen og Tómas Guðbjartsson, sem báðir eru prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands, stýrðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert