Euro Market fær haldlagt fé ekki afhent

Rekstrarfélag Euro Market-verslunarkeðjunnar krafðist þess að fá haldlagðar milljónir til …
Rekstrarfélag Euro Market-verslunarkeðjunnar krafðist þess að fá haldlagðar milljónir til baka, en kröfunni var hafnað. mbl.is/Eggert

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna skuli kröfum rekstrarfélags Euro Market-verslunarkeðjunnar um að haldlagningu lögreglu á alls 14,6 milljóna króna í eigu fyrirtækisins, verði aflétt.

Um er að ræða rúmar tíu milljónir í bankainnistæðum fyrirtækisins og allt að 4,5 milljónir í reiðufé, sem lögregla lagði hald á í verslunum Euro Market. Úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp 22. janúar síðastliðinn og staðfestur af Landsrétti 30. janúar.

Rannsókn þessa máls er eins sú viðamesta sem sem lögreglan hefur ráðist í er varðar skipulagða brotastarfsemi, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar vegna málsins í desember árið 2017, þar sem einnig voru fulltrúar frá pólsku rannsóknarlögreglunni, tollstjóra Europol og Eurojust.

Fram kom í kröfugerð fyrirtækisins að engin ástæða væri fyrir haldlagningu rekstrarfés þess, þar sem lögregla hefði ekki lengur til rannsóknar peningaþvætti í gegn um ótilgreinda greiðslugátt, sem fyrirtækið var í viðskiptum við.

Þá hefði rannsókn málsins dregist mikið og rekstrarféð sem væri í vörslu lögreglu væri nauðsynlegt fyrir reksturinn, meðal annars þar sem fjármögnun hefði gengið erfiðlega vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málið.

Í greinargerð frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sagði hins vegar að forsvarsmenn fyrirtækisins væru á meðal þeirra sem væru með réttarstöðu grunaðra, að eigandi fyrirtækisins hefði verið kærður í öðru landi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og að talið sé að hann hafi hagnast um hundruð milljóna króna á þess konar viðskiptaháttum.

Framsalsbeiðni hans er til meðferðar hjá yfirvöldum hérlendis, en maðurinn er einnig í farbanni. Í greinargerð lögreglu kemur fram að rannsókn málsins ljúki væntanlega á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert