Segja upptökurnar skipulagða aðgerð

Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð …
Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, fyrrverandi þingmanna Flokks fólksins. Þeir Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson koma ekki að málarekstrinum fyrir Persónuvernd. Samsett mynd

Klausturþingmennirnir segja skýringar Báru Halldórsdóttur á upptökum hennar af samtali þingmannanna 20. nóvember sl. ótrúverðugar og fara fram á að Persónuvernd afli myndefnis sem sýni mannaferðir fyrir utan hótelið Kvosina og veitingastofuna Klaustur.

Þetta kemur fram í bréfi Reimars Péturssonar, lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins, til Persónuverndar sem mbl.is hefur undir höndum. Telja þingmennirnir að myndefni geti varpað nánara ljósi á atburðarásina umrætt kvöld og vilja þeir að rannsakað verði til hlítar hversu einbeitt Bára gekk til aðgerða sinna, og eftir atvikum, hvort um samverknað hafi verið að ræða.

Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur með lögmönnum sínum Ragnari Aðalsteinssyni …
Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur með lögmönnum sínum Ragnari Aðalsteinssyni og Auði Tinnu Aðalbjarnadóttur. mbl.is/Árni Sæberg

Meðal þess sem kemur fram í bréfinu er að Bára hafi forðast að vekja athygli á sér og þannig hafi hún viljað viðhalda og styrkja væntingar þingmannanna um að þeir ræddu saman í einrúmi. Þá hafi aðgerðir Báru staðið yfir í u.þ.b. fjórar klukkustundir sem gefi til kynna að ásetningurinn hafi ekki aðeins verið styrkur heldur hafi verið tekinn frá tími til aðgerðanna á kostnað annarra hluta.

Heyrði illa samtalið sem kveikti hjá henni ásetning til upptöku

Í bréfinu bendir Reimar einnig á að skýringar Báru á aðdraganda þess að hún hóf upptökur lítt trúverðugar, þ.e. að efni samtalsins hafi kveikt hjá henni ásetning til upptöku, þar sem hún hafi viðurkennt í fjölmiðlum að hún hefði átt erfitt með að greina það sem fór þingmannanna á milli.

Þá segir í bréfinu til Persónuverndar að Bára hefði brugðið sér í gervi erlends ferðamanns og gert sér far um að haga sér sem slíkur m.a. með því að hafa með sér ferðamannabæklinga um innanlandsferðir og vinsæla ferðamannastaði. „Hún þóttist lesa þá til að viðhalda leynd um aðgerðir sínar,“ segir í bréfinu.

Loks bendir Reimar á að ljósmynd af þingmönnunum þegar þeir sátu á Klaustri og var tekin í upphafi kvölds staðfesti annaðhvort ásetning Báru til aðgerða frá upphafi, hafi hún sjálf tekið myndina, en hafi annar tekið myndina gefi það til kynna að einhver hafi vitað um aðgerðir Báru og tekið þátt í þeim. Bendir Reimar á að í greinargerð til Landsréttar hefði Bára sagt að hún hafi ekki tekið myndina.

Lögmaður Báru gerir kröfu um að Persónuvernd vísi málinu frá.

mbl.is