Segja stjórnina ganga á bak orða sinna

Meirihluti stjórnarandstöðuflokkanna lýsir yfir miklum vonbrigðum með stuðning ríkisstjórnarflokkanna við …
Meirihluti stjórnarandstöðuflokkanna lýsir yfir miklum vonbrigðum með stuðning ríkisstjórnarflokkanna við tillögu Bergþórs Ólasonar Miðflokksmanns á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylking, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins lýsa yfir „miklum vonbrigðum“ með stuðning ríkisstjórnarflokkanna við tillögu Miðflokksins á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokkunum.

Flokkarnir segja tillögu Miðflokksins hafa falið í sér brot á samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi um skiptingu á formennsku í nefndum.

„Fulltrúar minnihlutans höfðu margsinnis lagt til að Miðflokkur tilnefndi einhvern þeirra þriggja þingmanna flokksins sem ekki höfðu tekið þátt í samkomunni á Klaustri. Minnihlutinn hefur einnig ítrekað lagt til að formannsembættið færist til á næsta flokk í stjórnarandstöðunni á meðan Miðflokkurinn leysir ekki úr sínum málum og lögðu því til að fulltrúi Viðreisnar tæki við formennsku fyrir hönd minnihlutans,“ segir í tilkynningu.

„Afstaða hins nýja meirihluta liggur nú fyrir. Stjórnarflokkarnir nýta sér þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru og varða virðingu Alþingis og störf til að ganga á bak orða sinna varðandi samkomulag við stjórnarandstöðuna um skiptingu formennsku í nefndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert