Yngstu ökumennirnir fullir sjálfstrausts

mbl.is/​Hari

Yngstu ökumennirnir (18-24 ára) er sá hópur sem telur sig bestu ökumennina en 56% þeirra telja sig yfir meðallagi. Þar af segjast 11% vera langt yfir meðallagi og 45% nokkuð yfir. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu.

Í viðhorfskönnun sem Gallup gerði í lok síðasta árs fyrir Samgöngustofu kemur fram að örfáir ökumanna telja sig vera undir meðallagi hvað hæfni þeirra til aksturs varðar. Þar sem spurningin snýst um meðaltal þá væri raunsönn niðurstaða að jafnmargir væru yfir meðallagi og undir en þess í stað virðast flestir telja sig betri en aðra ökumenn eða svipaða. 

10% allra sem spurðir voru telja sig vera langt yfir meðallagi, 41% nokkuð yfir meðallagi og 46% svipaðir og aðrir ökumenn. Það er ljóst að karlar eru ekki eins hógværir og konur því 17% þeirra telja sig langt yfir meðaltali á meðan aðeins 3% kvenna telja sig tilheyra úrvalsflokki ökumanna.

Aðeins 6% yngstu ökumannnanna telja sig vera nokkuð undir meðallagi. Til samanburðar má geta þess að í aldurshópnum 35 – 44 ára telja 50% sig yfir meðallagi en reyndar eru færri í þeim hópi sem telja sig undir meðallagi eða aðeins 1%.

Yngsti aldurshópurinn er sá hópur sem líklegastur er, samkvæmt slysatölum Samgöngustofu, til að valda umferðarslysum og vera kann að þessi sannfæring og ranghugmynd um eigin hæfni hafi þar áhrif, segir í fréttatilkynningu frá Samgöngustofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert