Píratar harma framkomu Snæbjörns

Snæbjörn Brynjarsson.
Snæbjörn Brynjarsson. Skjáskot/Alþingi

Þingflokkur Pírata harmar framkomu Snæbjörns Brynjarssonar um síðastliðna helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum en Snæbjörn sagði af sér sem varaþingmaður flokksins vegna ummæla sem hann lét falla í garð Ernu Ýrar Öldu­dótt­ur á öld­ur­húsi um helg­ina.

Í yfirlýsingunni segir að kjörnir fulltrúar eigi að sýna gott fordæmi. Snæbjörn hafi axlað ábyrgð á gjörðum sínum og tilkynnt þingflokki Pírata að hann segði af sér varaþingmennsku. 

Þingflokkurinn styður ákvörðun Snæbjarnar og virðir þá ábyrgð sem í henni felst.

Snæbjörn sagði fyrr í morgun að hann hefði misst stjórn á skapi sínu og sagt hluti við Ernu sem voru með öllu óviðeigandi. Hegðun hans sé ekki sæmandi kjörnum fulltrúa, hann muni axla ábyrgð og biður alla hlutaðeigandi afsökunar.

mbl.is