Flutt á slysadeild eftir eldsvoða

Kona var flutt á slysadeild Landspítalans vegna gruns um reykeitrun eftir að eldur kom upp í húsi í hverfi 108 á öðrum tímanum í nótt. Að sögn varðstjóra í slökkviliðinu var búið að slökkva eldinn þegar lögregla og slökkvilið komu á vettvang. 

Samkvæmt dagbók lögreglunnar hafði eldurinn komið upp í rúmi en heimilismaður hafði ætlað að hita rúmið fyrir notkun og hafði kveikt á rafmagnsteppi í rúminu. Viðkomandi var ekki í rúminu þegar eldurinn kviknaði. Mikill reykur var í húsinu og annaðist slökkviliðið reykræstingu.

Slökkviliðið sinnti einnig vatnsleka í nótt en að öðru leyti hefur nóttin verið róleg.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar á Vesturlandsvegi í nótt. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án ökuréttinda, það er hann hafði ekki endurnýjað réttindi sín.

Einn var stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á Akureyri í nótt. Jafnframt er hann grunaður um vörslu fíkniefna en á honum fannst lítilræði fíkniefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert