Þrír starfsmenn veiktust vegna myglu

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. mbl.is/Golli

Hluta húsnæðis Flóaskóla í Flóahreppi hefur verið lokað eftir að grunur kom upp um myglu í starfsmannaaðstöðu og skólaseli. Gunnlaug Hartmannsdóttir skólastjóri segir að brugðist hafi verið við fyrir jól þegar veikinda fór að gæta meðal starfsfólks.

„Það hafa þrír starfsmenn veikst. Tveir þeirra hafa áður verið í aðstæðum þar sem mygla hefur komið upp. Það þykir óvenju hátt hlutfall meðal þrjátíu starfsmanna að þrír veikist,“ segir Gunnlaug en tveir starfsmannanna eru enn frá vinnu vegna þessa. Engin veikindi hafa komið upp meðal nemenda í skólanum.

Hún segir að sérfræðingar frá Eflu verkfræðistofu hafi verið fengnir til að taka út húsnæði skólans sem var reistur árið 1947. „Til að vera örugg létum við taka út allt húsnæði skólans, sér í lagi til að vera viss um að það húsnæði sem við værum að flytja í væri í lagi. Við höfum unnið þetta samkvæmt ráðgjöf sérfræðinga.“

Aðspurð segir hún að þeim hluta húsnæðisins þar sem mygla fannst hafi verið lokað meðan unnið sé að því að finna lausn. „Við þrengdum bara að okkur og komum allri starfsemi fyrir innan þess rýmis sem við höfum. Það eru allir sem einn að vinna að því að leysa hlutina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert