Hefja átakið Út að borða fyrir börnin

Börn að leik í snjó. Mynd úr safni.
Börn að leik í snjó. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Fjáröflunarátakið Út að borða fyrir börnin, sem Barnaheill og veitingastaðir standa að, hefst á morgun. Alls styðja 32 veitingastaðir, sem eru á 102 stöðum um landið, átakið að þessu sinni með því að láta hluta af verði valinna rétta renna til verkefna sem snúa að því að vernda börn gegn ofbeldi.

Átakið er nú haldið í níunda sinn og stendur það yfir frá 15. febrúar til 15. mars.

„Við erum afar þakklát þeim veitingastöðum sem eru tilbúnir að styðja verkefni Barnaheilla með þessum hætti,“ er haft eftir Ernu Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, í fréttatilkynningu. „Samtökin eru háð velvilja og stuðningi bæði almennings og fyrirtækja og þetta hjálpar okkur að vinna enn betur að þeim mikilvægu verkefnum sem heyra undir þennan málaflokk hjá okkur.“

Eitt stærsta verkefni Barnaheilla sem snýr að vernd barna gegn ofbeldi er Vinátta, forvarnaverkefni gegn einelti í leik- og grunnskólum. Samtökin gáfu út Vináttuefni fyrir 3–6 ára árið 2016 og fyrir 0–3 ára nú í ársbyrjun 2019. Þá stendur tilraunakennsla á efni fyrir yngstu bekki grunnskóla einnig yfir.

Íslensk stjórnvöld lögfestu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 2013, en í honum er börnum tryggður réttur til að njóta verndar gegn ofbeldi.

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert