Fimm barna móðir og félagsþjónustan

Inga Fríða er hæstánægð með þjónustuna sem hún hefur fengið …
Inga Fríða er hæstánægð með þjónustuna sem hún hefur fengið hjá Ísafjarðarbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það skiptir miklu máli fyrir fagfólk að fá endurgjöf frá fólkinu sem þiggur þjónstuna. Við erum alltaf að vinna út frá kerfum og reglum og það er mikilvægt að fá innsýn í það hvað virkar,“ segir Guðlaug M. Júlíusdóttir, deildarstjóri barnaverndar á norðanverðum Vestfjörðum hjá velferðarsviði Ísafjarðarbæjar.

Guðlaug heldur erindi ásamt skjólstæðingi sínum á Félagsráðgjafaþingi undir yfirskriftinni Heildstæð þjónusta við barnafjölskyldur. Þingið fer fram á Hótel Hilton í dag og ber yfirskriftina Börnin geta ekki beðið.

Mbl.is tók þær Guðlaugu og skjólstæðing hennar, fimm barna móðurina Ingu Fríðu Einarsdóttur, tali um erindið og boðskap þess.

„Við fluttum vestur á Ísafjörð erlendis frá, þar sem við höfðum átt mjög erfitt, árið 2015 og ég leitaði strax til félagsþjónustunnar,“ segir Inga Fríða. Þar hafi hún fengið allan þann stuðning sem hægt var að fá.

Hefði líklega ekki fengið jafn heildstæða þjónustu annars staðar

„Það var í raun allt það batterí sem í boði er fyrir börn heima á Ísafirði sett í gang á þessu tímabili. Félagsþjónusta, barnavernd, MST og BUGL,“ útskýrir Guðlaug, en í dag horfir allt til hins betra hjá fjölskyldu Ingu Fríðu, sem sjálf er farin að sækja sér menntun.

„Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þeirra,“ segir Inga Fríða, sem er ekki viss um að hún hefði fengið sama stuðning annars staðar á landinu, svo sem í stóru sveitarfélagi á borð við Reykjavíkurborg. „Þetta virkar ef allir vinna saman. Ég leitaði til félagsþjónustunnar og þar var allt til alls.“

Samþætting þjónustu lykilatriði

Guðlaug tekur undir þetta og segir samþættingu þjónustu við barnafjölskyldur afar mikilvæga. „Kerfið eins og það hefur verið er brotakennt og hefur ekki tekið mið af því að fólk í þessum sporum á erfitt með að ganga á milli aðila og segja sögu sína aftur og aftur því fagfólkið er ekki að tala saman. Það er framtíðarsýnin að fólk geti gengið inn um einar dyr og fengið alla þá þjónustu sem það þarf á að halda.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert