Móttökuskóli barna hælisleitenda ekki ákveðinn

Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV í vikunni að …
Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV í vikunni að til stæði að senda öll börn hælisleitenda í þriðja til tíunda bekk í Vogaskóla. mbl.is/Árni Sæberg

Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar hefur skilað tillögum um bætta móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í grunnskólum Reykjavíkur. Tillögur hópsins byggja m.a. á reynslu Norðmanna og annarra Norðurlandaþjóða.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir enn fremur að í tillögum starfshópsins sé lagt til að valinn verði skóli sem sérhæfi sig í móttöku og mati á námslegri stöðu barna hælisleitenda.

Að móttökuferli loknu fari börnin í sína hverfisskóla. Sérhæfður hópur kennara mun leiða verkefnið og er áætlað að það hefjist haustið 2019. 

Fram kemur að hlutverk kennarahópsins sé fyrst og fremst fólgið í því að taka á móti börnum á aldrinum 8 til 15 ára, meta námslega stöðu þeirra og fyrri skólagöngu og aðstoða þau við að læra á íslenskt umhverfi og aðlagast áður en þau hefja skólagöngu í sínum hverfisskóla.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV á miðvikudagskvöld að til stæði að senda öll börn hælisleitenda í þriðja til tíunda bekk í Vogaskóla. Í tilkynningu frá borginni kemur hins vegar fram að ekki sé búið að ákveða móttökuskóla. Nokkrir grunnskólar hafi hins vegar lýst yfir áhuga verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert