Verkalýðsfélög stýra ekki landinu

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir forystu verkalýðsfélaganna ekki kjörna til að fara með stjórn landsmála heldur fyrst og fremst til þess að semja um kjör á markaði við sína viðsemjendur. Viðsemjendurnir eru Samtök atvinnulífsins en ekki ríkið.

Þetta sagði Bryndís í umræðuþættinum Þingvöllum á K100 í morgun þegar talið barst að tillögum ASÍ og Indriða Þorlákssonar um fjölgun skattþrepa sem lausn á kjaradeilunni.

Bryndís sagði að ríkisstjórnin sé búin að gefa út að eitthvað svigrúm sé til staðar hjá ríkinu sem beitt verður til þess að bæta kjör þeirra lægst launuðu á Íslandi. „Hvort því fygli fjölgun skattþrepa á eftir að koma í ljós, en við höfum sagt nei við hátekjuskatti,“ sagði Bryndís og bætti við að efra skattþrepið væri hátekjuskattur.

Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Halldóra Mogensen, Pírötum, á K100 í …
Bryndís Haraldsdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Halldóra Mogensen, Pírötum, á K100 í morgun. Skjáskot/K100

„Það er eitt hvernig verkalýðsforystan segist vilja sjá samfélagið, en það er annað þegar maður heyrir hótanir komnar fram. Það erum við þingmennirnir sem erum kjörnir af þjóðinni til að mynda svona stefnu en verkalýðsforystan er kosin af litlum hluta félagsmanna,“ segir Bryndís. „Það getur ekki verið fólkið sem stýrir landinu eða skattkerfinu, þau eiga fyrst og fremst að semja um kjör á markaði við sína viðsemjendur sem eru Samtök atvinnulífsins en ekki ríkið.“

Í þættinum hjá Björt Ólafsdóttur í morgun voru auk Bryndísar þær Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. Halldóra tók öfugan pól við Bryndísi og sagði Pírata styðja kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Steinunn Þóra sagði VG sömuleiðis hafa talað fyrir stighækkandi skattkerfi þannig að þeir tekjuhærri borgi hlutfallslega meira til samfélagsins. Bryndís benti á að það væri raunin í dag, að þeir tekjuhærri greiði meira til samfélagsins.

Halldóra Mogensen benti á að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefði gert stjórnvöldum grein fyrir valkostunum sem þau standa frammi fyrir á kjörtímabilinu. Annaðhvort með vinnumarkaðinn í fanginu út kjörtímabilið eða að á landinu ríki vinnufriður til að byggja upp réttlátara samfélag.

„Þetta er hótun,“ sagði þá Bryndís.

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is