SA heldur á fund ríkisstjórnarinnar

Halldór Benjamín í húsnæði ríkissáttasemjara.
Halldór Benjamín í húsnæði ríkissáttasemjara. mbl.is/​Hari

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins halda nú á fund ríkisstjórnarinnar í Stjórnarráðinu, þar sem ætla má að ræddar verði breytingar á skattkerfinu til þess að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þetta staðfestir Halldór Benjamín Þorbergsson í samtali við mbl.is.

Fyrr í dag fundaði ríkisstjórnin með forsetum ASÍ í Stjórnarráðinu.

Flest spjót beinast að stjórnvöldum í yfirstandandi kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins, annars vegar við VR, Eflingu, VLFA og VLFG, en þær viðræður fara fram hjá ríkissáttasemjara, og hins vegar við Starfsgreinasambandið.

Verkalýðsfélögin fjögur sem vísað hafa deilu sinni við SA til ríkissáttasemjara höfnuðu tilboði SA fyrir helgi og SA hafnaði móttilboði félaganna, sem fara fram á breytingar á skattkerfinu. Næsti fundur deiluaðila fer fram á fimmtudag, en vonast er til þess að ríkisstjórnin verði búin að kynna sínar tillögur fyrir fundinn.

Viðræðunefnd Starfsgreinasambandsins mun meta hvort vísa eigi deilu sambandsins við SA til ríkissáttasemjara á fundi síðdegis í dag.

Verði tillögur ríkisstjórnarinnar ekki til þess að deiluaðilar nái saman er viðbúið að verkalýðsfélögin fjögur, VR, Efling, VLFA og VLFG, slíti viðræðum til þess að hefja undirbúning verkfalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert