Hefur umboð til að slíta viðræðunum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er búin að fá umboð …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er búin að fá umboð sinna félagsmanna til að slíta viðræðunum. mbl.is/​Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fékk nú síðdegis umboð frá samninganefnd félagsins til að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins á morgun. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Efling, VR, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðsfélag Akraness munu funda með Samtökum atvinnulífisins á morgun og kveðst Sólveig Anna ekki búast við að SA leggi þá fram nýtt tilboð sem gengið verði að.

 „Nei, ég á ekki sérstaklega von á því en við bara sjáum hvað gerist á morgun. Ég er þá í það minnsta komin með þessa heimild frá mínu fólki. Þetta var bara algjörlega afdráttarlaus niðurstaða,“ sagði Sólveig Anna. Félagsmenn Eflingar líti svo á að þeirra tími sé komin til að fá það sem þeir eigi raunverulega inni.

mbl.is