Stjónvöld og SA láti af hroka

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Framsýn stéttarfélag skorar á stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins að láta af þeim hroka sem endurspeglast í tillögum þeirra um skattamál, velferðarmál og launahækkanir til lausnar á kjaradeilunni.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi Framsýnar í dag, en fyrir fundinum lá tillaga um að samningsumboð félagsins yrði afturkallað frá Starfsgreinasambandinu og deilunni vísað til ríkissáttasemjara, en í ljósi atburðarásar dagsins, þar sem SGS vísaði deilunni til sáttasemjara, var tillaga þess efnis dregin til baka.

Í ályktuninni lýsir Framsýn yfir miklum vonbrigðum með þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Framsýn hafi vænst til þess að tillögurnar kæmu þeim lægst launuðu best, en í stað þess gagnist svigrúm til skattalækkana öllum, og ekki síst þeim sem taki árslaun verkafólks á einum mánuði.

„Til að kóróna vitleysuna er ætlunin að frysta hækkun á persónuafslætti í þrjú ár. Félagsmenn Framsýnar mótmæla þessum vinnubrögðum.“

„Miðað við þá stöðu sem uppi er í dag er afar mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands, Landssambands íslenskra verslunarmanna og iðnaðarmannafélögin innan Alþýðusambands Íslands standi saman í yfirstandandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samstaðan hefur í gegnum tíðina verið það afl sem fært hefur verkafólki bestu kjarabæturnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert