FKA og RÚV í samstarf um fjölbreytni

Magnús Geir útvarpsstjóri og Rakel, framkvæmdastjóri FKA, við undirritun.
Magnús Geir útvarpsstjóri og Rakel, framkvæmdastjóri FKA, við undirritun. Ljósmynd/Aðsend

Félag kvenna í atvinnulífinu og Ríkisútvarpið hafa undirritað samstarf um verkefni sem ætlað er að auka fjölbreytni viðmælenda í íslenskum fjölmiðlum, en í því felst að FKA mun auglýsa eftir konum vítt og breytt úr samfélaginu sem hafa áhuga á þjálfun í að miðla sérþekkingu sinni í fjölmiðlum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV í framhaldi af Fjölmiðladegi FKA sem haldinn var í gær. Þar var skorað á fjölmiðla að jafna kynjahlutföll viðmælenda sinna í fréttum.

Árlega næstu þrjú ár verður haldið hagnýtt námskeið í húsakynnum RÚV þar sem þátttakendur fá leiðsögn og tækifæri til að spreyta sig sem viðmælendur við raunverulegar aðstæður í útvarpi og sjónvarpi, og velur nefnd FKA fjölbreyttan hóp kvenna til að taka þátt og leggur til reynda kennara til verksins.

„Fjölmiðlaverkefni FKA hefur staðið yfir frá 2013 og á þeim tíma höfum við séð mikla breytingu á viðhorfi og áhuga fjölmiðla að auka ásýnd kvenna sem viðmælendur í öllum málum. Þetta verkefni er frábært að því leyti að það gagnast ekki aðeins þeim konum sem taka þátt, heldur öllum fjölmiðlum og fjölmiðlaneytendum á Íslandi,“ segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.

„Jafnrétti er alger undirstaða í dagskrá og starfsemi RÚV. Frá upphafi árs 2016 hefur verið haldið nákvæmt kynjabókhald yfir dagskrá RÚV og við erum stolt af því að algert jafnvægi er á milli kynja í hópi viðmælenda í dagskrá RÚV. Á hinn bóginn er enn nokkuð í að jafnvægi náist meðal viðmælenda í fréttum þó bilið hafi minnkað hjá RÚV á undanförnum árum, það er nú 63% karlar og 37% konur.  Og þó RÚV skeri sig frá flestum öðrum miðlum hérlendis og erlendis hvað þetta varðar þá viljum við halda áfram að gera betur,“ sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri við undirritun samstarfsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert