Hungurganga á Austurvelli

Gulu vestin hafa mótmælt síðustu mánuði í Frakklandi.
Gulu vestin hafa mótmælt síðustu mánuði í Frakklandi. AFP

Fólk á lægstu launum, örorkulífeyri og eftirlaunum hefur ekki nægar tekjur til að lifa út mánuðinn. Þetta á við um tugþúsundir einstaklinga og fjölskyldna. Það er þjóðarskömm.“ Þetta kemur fram í texta vegna mótmæla sem haldin verða á Austurvelli á morgun.

Um eitt þúsund hafa boðað komu sína í Hungurgöngu á morgun og á fimmta þúsund hafa sýnt göngunni áhuga. Þó er ekki um mótmælagöngu að ræða, heldur mótmæli með yfirskriftinni „Láglaunastefnan er ofbeldi!“.

Gulu vestin standa fyrir mótmælunum en sá hópur kom meðal annars saman við Landsbankann á mánudag til að mótmæla launum bankastjóra. Gulu vestin eru tilvísun í mót­mæli sem staðið hafa yfir mánuðum sam­an í Frakkland.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, munu ávarpa mótmælendur.

Dagsetningin mótmælanna er engin tilviljun en í lýsingu vegna þeirra á Facebook segir að láglaunafólk á leigumarkaði hafi, eftir skatta, gjöld og húsnæðiskostnað, aðeins efni á að framfleyta sér fram á eftirmiðdaginn 22. febrúar sé miðað við markaðsverð á húsaleigu og framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.

Einstæð móðir með tvö börn fær hærri húsnæðisbætur en einstaklingur og börnin fá barnabætur. Þetta dugar samt fjölskyldunni ekki lengur en fram til miðnættis föstudaginn 22. febrúar, sé miðað við markaðsverð á húsaleigu og framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Frá og með laugardeginum tekur hungurgangan við út mánuðinn, hjá móðurinni og börnum hennar,“ segir á Facebook.

Fólk sem býr við þessar ömurlegu aðstæður er hvatt til að koma á Austurvöll og skila skömminni, eins og segir í lýsingu mótmælanna. „Þau bera ekki ábyrgð á fátæktinni sem þau hafa orðið fyrir. Það er samfélagið sem ber ábyrgðina. Og það er til lausn; að hækka lægstu laun og lágmarkslífeyri og eftirlaun.

mbl.is