Ráðherrar ræða mál Jóns Þrastar

Um er að ræða tvíhliða fund ráðherranna í tengslum við …
Um er að ræða tvíhliða fund ráðherranna í tengslum við fund Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundar með utanríkisráðherra Írlands á morgun og hyggst bera upp mál Jóns Þrastar Jónssonar sem sást síðast í Dyflinni fyrir rúmum tveimur vikum. Þetta staðfestir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

Um er að ræða tvíhliða fund ráðherranna í tengslum við fund Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Búið var að gera ráð fyrir fundinum fyrir margt löngu en segir Guðlaugur Þór sér hafa þótt eðlilegt að nýta tækifærið til þess að spyrjast fyrir um mál Jóns Þrastar. 

„Bæði borgaraþjónustan og sendiráðið hafa verið í samskiptum við þarlend yfirvöld og aðstandendur en á morgun fæ ég að heyra það beint frá honum hvernig staðan er,“ segir Guðlaugur Þór.

Aðspurður hvort hann muni þrýsta á að björgunarsveitir á Írlandi verði virkjaðar vegna leitarinnar, líkt og aðstandendur Jóns Þrastar hafa kallað eftir, segist Guðlaugur Þór vona að eitthvað nýtt verði komið fram í málinu fyrir fundinn.

„Við höfum hvatt Íra til þess að vinna í málinu eins og kostur er og munum auðvitað halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert