Fastir í bílum vegna grjótfoks og veðurofsa

Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Eitthvað hefur verið um að björgunarsveitarmenn hafi þurft að aðstoða ferðafólk sem hefur orðið strandaglópar í bílum sínum á leiðinni milli Hafnar í Hornafirði og Djúpavogs vegna veðurofsa og grjótfoks. Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Það hefur verið nokkuð mikið um grjótfok sem hefur valdið því að rúður hafa brotnað í bílum og þetta hefur orðið til þess að ferðamenn hafa orðið strandaglópar á vegum sem þeir eru ekki vanir að aka,“ segir hann.

Davíð Már segir 3-4 slík tilfelli hafa orðið í morgun þar sem björgunarsveitarmenn hafi komið fólki í skjól, en bílarnir verið skildir eftir.

Eitt af fyrstu útköllum vegna veðurofsans var einmitt þessa eðlis, en á fimmta tím­an­um í morgun barst Neyðarlín­unni til­kynn­ing um ferðafólk í vanda á leiðinni milli Horna­fjarðar og Djúpa­vogs. Fólkið komst hvorki aft­ur á bak né áfram vegna veðurofs­ans. Þá hafði rúða brotnað í bíln­um sem gerði vist­ina þar enn óbæri­legri.

Davíð Már segir nokkra bíla hafa verið strand í Álftafirði og Hvaldalnum á ellefta tímanum í morgun. Veg­in­um um Hval­nesskriður var lokað í morgun vegna grjót­hruns og grjót­foks, en ekki tókst að stöðva alla í að fara þá leið. „Það er ekki alltaf hægt að ná til allra, en menn gerðu sitt besta í gær til að reyna að ná til manna í gegnum ferðaþjónustufyrirtækin,“ segir Davíð Már og kveður það hafa tekist nokkuð vel sé verkefnafjöldi björgunarsveita á þessum slóðum hafður í huga.

Fok á þakplötum og lausamunum

Meirihluti verkefna björgunarsveita þennan morguninn hefur enda tengst foki á þakplötum og lausamunum. Þak fiskimjölsverksmiðjunnar á Höfn var eitt slíkra verkefna, en tilkynnt var um það á tíunda tímanum í morgun að þak­plöt­ur og þakkant­ur húss­ins væru tek­in að losna. Sú ákvörðun var þó tekin að fara ekki upp á þakið til að freista þess að festa plöturnar.

Björgunarsveitir á Djúpavogi og innar á Austfjörðum hafa sömuleiðis sinnt nokkrum verkefnum í morgun sem tengjast foki á þakplötum, klæðningu og lausamunum. Þá var tilkynnt um fok á þakplötum á Vopnafirði í morgun og hafði tekist að hefta för þeirra um ellefuleytið í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert