„Það er erfitt að bíða svona“

Jón Þröstur Jónsson.
Jón Þröstur Jónsson.

Ellefu vinir og ættingjar Jóns Þrastar Jónssonar eru enn staddir í Dublin til að leita að honum, 17 dögum eftir að hann hvarf þar sporlaust 9. febrúar síðastliðinn. Daníel Örn Wium, bróðir Jóns, segir að í kjölfar hvarfs hans hafi orðið vitundarvakning á Írlandi um týnt fólk. „Okkur þykir mjög vænt um að það komi eitthvað gott út úr þessu og að umræðan um týnt fólk verði meiri,“ segir Daníel.

Fjallað var um hvarf Jóns í Crimecall, sem er vinsæll sjónvarpsþáttur á Írlandi, í gærkvöldi og í kjölfarið bárust lögreglu 15-20 ábendingar sem nú er verið að vinna úr.

Daníel segir að hann og aðrir aðstandendur Jóns fái ekki að vita hvað í þeim felist. „Það er mjög erfitt að bíða svona, en við höfum verið vöruð við því að taka of mikið mark á ábendingum. Að það muni berast margar sem ekkert mark sé takandi á. Það myndi auka enn frekar á harmleikinn ef við værum alltaf að gera okkur einhverjar vonir, sem myndu svo síðan ekki verða að neinu,“ segir Daníel.

Mynd af Jóni Þresti úr öryggismyndavélum í Dublin.
Mynd af Jóni Þresti úr öryggismyndavélum í Dublin.

Stuðningurinn er dýrmætur

Hann segir óendanlega dýrmætt fyrir þau sem stödd séu ytra að finna fyrir stuðningi íslensku þjóðarinnar í þessum erfiðu aðstæðum. Þá hafi nokkur hópur heimamanna tekið sig saman við að aðstoða Íslendingana við leitina.

„Við erum með breitt bakland Íra hérna úti, fólk sem hefur lagt allt til hliðar til að hjálpa okkur. Við höfum líka heyrt frá fólki sem við þekkjum lítið sem ekkert. Það hvetur okkur áfram og sannfærir okkur um að gefast ekki upp.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert