Leita þeirra sem gætu hafa smitast

Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað.
Heilbrigðisstofnun Austurlands í Neskaupstað. mbl.is/Sigurður Bogi

Umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi og aðrir starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands vinna að því að finna þá sem helst má reikna með að hafi komist í tæri við mislingasmit og ná sambandi við þá.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef HSA sem Pétur Heimisson, umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi, skrifar undir.

Þar kemur fram að einstaklingar sem voru í flugvélum Icelandair og Air Iceland Connect um miðjan síðasta mánuð og teljast smitandi hafi farið nokkuð víða innan Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs.

Mælst er til þess að allir sem ekki eru bólusettir og hafa ekki fengið mislinga skuli láta bólusetja sig.

„Bólusetja má börn frá 6 mánaða aldri. Skipulag bólusetninga verður í höndum fagstjóra heilsugæslusviðs HSA og fólk er beðið að hringja í síma 470-3081 vegna bólusetninga – en ekki koma beint á næstu heilsugæslustöð,“ segir í tilkynningunni.

„Fáir þú fyrir 22. mars nk. eftirfarandi einkenni: Hita, köldu-einkenni, roða í augu og/eða húðútbrot og sérstaklega ef þú hefur aldrei verið bólusett/ur við mislingum eða ekki fengið mislinga, þá hvetjum við þig til að HRINGJA (ekki fara beint á heilsugæslustöðina) í heilsugæslu HSA í síma 470-3081.“

Upplýsingar um mislinga má finna á vefnum heilsuvera.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert