Geti lagst beint inn á viðeigandi deild

Aukinn viðbúnaður hefur verið settur í upplýsingasímann 1700 og geta …
Aukinn viðbúnaður hefur verið settur í upplýsingasímann 1700 og geta einstaklingar sem áhyggjur hafa af mislingasmiti hringt í símann og fengið álit fagfólks. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hér er sérstakur viðbúnaður á barnaspítala og smitsjúkdómadeild þannig að einstaklingar sem eru smitaðir af mislingum geti lagst beint inn á viðeigandi deild,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Fjögur mislingasmit hafa komið upp hér á landi undanfarna daga og boðaði sóttvarnarlæknir til neyðarfundar vegna þess í dag.

„Þar var sett í gang viðbragð í samstarfi sóttvarnarlæknis, Landspítala, heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktarinnar,“ segir Jón Magnús.

Einstaklingar sem hafa áhyggjur af mislingasmiti eða vilja óska nánari upplýsinga eru hvattir til þess að hringja í upplýsingasímann 1700 þar sem hægt er að fá samband við fagfólk. „Þá er hægt að fá heimavitjun í stað þess að leita á læknavakt eða bráðamóttökur. Það er gert vegna þess hve smitandi mislingarnir eru.“

„Viðbragð Landspítalans felst í því að styðja við þetta almenna viðbragð með ráðum og dáð,“ segir Jón Magnús.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert