Áströlskum hjónum dæmdar bætur

Hjónin David og Gail Wilson frá Ástralíu.
Hjónin David og Gail Wilson frá Ástralíu. Skjáskot/RÚV

Áströlskum hjónum sem urðu viðskila við samferðafólk sitt í vélsleðafeðr á vegum ferðaþjónustunnar Mountaineers of Iceland í janúar 2017 voru dæmdar tæplega 700 þúsund krónur í bætur vegna verulegs gáleysis leiðsögumanna í ferðinni. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Daginn sem ferðin var farin hafði Veðurstofan gefið út stormviðvörun, en Mountaineers of Iceland ákváðu samt að fara í sleðaferðina. Í dóminum kemur fram að starfsmenn fyrirtækisins hafi meðal annars farið upp á jökulinn fyrir ferðina til að kanna aðstæður og þá hafi samkvæmt veðurspá átt að draga úr veðri þegar liði á daginn.

Raunin varð hins vegar sú að þegar ferðin var hálfnuð þá skall veðrið á. 34 ferðamenn fóru í ferðina, þar af tvö börn, á 17 sleðum, auk fimm leiðsögumanna. Áströlsku hjónin voru þar á meðal, en þau voru öftust í röðinni. Þegar veðrið skall á drapst skyndilega á sleðanum þeirra og var enginn leiðsögumaður fyrir aftan þau.

Hjónin enduðu með að grafa sig í snjóinn við sleðann, en í millitíðinni höfðu þau náð að koma sleðanum í gang og færðu þau hann þrátt fyrir fyrirmæli fyrir ferðina um að stoppa sleðann ef þau yrðu viðskila við hópinn. Fundust þau nokkru seinna af björgunarsveitarfólki sem hafði verið kallað út til leitar.

Fram kemur í dóminum að leit hafi ekki hafist að fólkinu fyrr en einni og hálfri klukkustund eftir að síðast var vitað með vissu að þau væru í hópnum. Hafi leiðsögumennirnir ekki tekið eftir að fólkið vantaði í hópinn fyrr en komið var aftur niður í skála.

Segir í dóminum að starfsmenn Mountaineers of Iceland hafi sýnt af sér gáleysi með „ákvörðun sinni um að fara í umrædda vélsleðaferð með óreynda ferðamenn á hálendi Íslands 5. janúar 2017.“ Þá teljist það verulegt gáleysi að hafa misst sjónar á fólkinu og ekki áttað sig á því að þau vantaði í hópinn fyrr en rúmlega hálfri annarri klukkustund síðar.

Í ljósi reynslu leiðsögumannanna og að fyrirtækið hafi um árabil selt slíkar ferðir segir í dóminum að þeim hafi mátt vera „fulljóst hvaða hætta stefnendum gat verið búin miðað við þær aðstæður sem uppi voru í málinu. Að mati dómsins var gáleysi þeirra að þessu leyti verulegt.“

Mountaineers of Iceland taldi að fólkið hefði ekki átt að keyra sleðann frá þeim stað þar sem það stoppaði sem hafi getað gert leit erfiðari. Dómurinn taldi hins vegar að ekki væri hægt að telja þeim til sakar að hafa keyrt sleðann áfram þegar liðið var á þriðju klukkustund frá því að þau urðu viðskila við hópinn. „Telja verður að í ljósi þess að þau voru í óvæntum og erfiðum aðstæðum, auk þess sem tekið var að rökkva, verði þau ekki látin gjalda þess að sjálfsbjargarviðleitni þeirra hafi tekið völdin á þessum tímapunkti,“ segir í dóminum.

Var fyrirtækið Skálpi ehf., rekstarfélag Mountaineers of Iceland dæmt til að greiða hjónunum samtals um 700 þúsund í bætur vegna málsins og 1,3 milljónir í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert