Ráðherrar mættir á Bessastaði

Ríkisstjórn Íslands við upphaf fundarins.
Ríkisstjórn Íslands við upphaf fundarins. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðherrar í ríkisstjórninni eru komnir á Bessastaði þar sem ríkisráðsfundur fer fram vegna afsagnar Sigríðar Andersen úr stóli dómsmálaráðherra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mun taka sæti hennar tímabundið eins og greint var frá fyrr í dag.

Við komuna á Bessastaði sagði Þórdís að hún myndi í framhaldi af ríkisráðsfundinum setjast niður með sérfræðingum dómsmálaráðuneytisins til að fara yfir stöðuna sem er komin upp með Landsrétt. Spurð um hvort hún væri sammála gagnrýni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigríðar á dóm Mannréttindadómstólsins sagði Þórdís að hún læsi bæði meirihluta- og minnihlutaálit dómsins og hún teldi mikilvægt að láta reyna á þetta með áfrýjun.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Árni Sæberg

Sagði Þórdís að það væru ekki góð skilaboð í samfélagið þegar Landsréttur hefði ákveðið að dæma ekki í nokkra daga. Hins vegar væru öll mál þess eðlis að hægt væri að leysa þau.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við komuna á fundinn að henni litist vel á Þórdísi í embætti dómsmálaráðherra. „Ég held að Þórdís muni valda þessu vel,“ sagði hún og bætti við að þetta væri farsæl ráðstöfun. Sagði Katrín að það væri fullkomlega eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi nýta tímann vel áður en farið væri í einhverja uppstokkun.  

Þórdís Kolbrún mætir á Bessastaði.
Þórdís Kolbrún mætir á Bessastaði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is