Setti upp bláu ljósin til hræða

mbl.is/Júlíus

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í nótt í Hafnarfirði en ökumaður bifreiðarinnar notaði blá neyðarljós í akstri eins og hann væri að reyna að stöðva ökutæki sem á undan var ekið. 

Þegar lögreglumenn ætluðu að hafa afskipti af ökumanninum jók hann hraða bifreiðar sinnar og reyndi að aka burt.  Aðspurður um brotið sagði ökumaðurinn að bifreiðinni á undan honum hefði svínað fyrir sig og hann hafi ætlað að hræða þann ökumann. Búnaðurinn var haldlagður og skýrsla rituð, segir í dagbók lögreglunnar eftir nóttina.

Síðdegis í gær barst lögreglu ábending um konu sem hafði lagst fyrir framan bifreið á Miklubrautinni. Þegar lögregla kom á vettvang var vegfarandi búinn að færa konuna af akbrautinni en konan var í annarlegu ástandi og framvísaði hún ætluðum fíkniefnum við afskipti lögreglu. Konunni var að loknum viðræðum ekið á heilbrigðisstofnun þar sem hún ætlaði að leita aðstoðar.

Tveir menn í annarlegu ástandi voru handteknir í gærkvöldi í hverfi 104 grunaðir um innbrot/þjófnað og nytjastuld bifreiðar. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Síðdegis var einnig tilkynnt um innbrot í leigubíl í hverfi 101 en úr honum var stolið staðsetningartæki, radarvara ofl. 

Líkt og flesta daga voru ökumenn í vímu stöðvaðir í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu.

Síðdegis var bifreið stöðvuð i hverfi 108. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Lögreglan stöðvaði bifreið í hverfi 108 ígærkvöldi eftir að ökumaðurinn hafði ekki virt stöðvunarskyldu við gatnamót. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíknefna, akstur bifreiðar án réttinda þ.e. hefur aldrei öðlast ökuréttindi og brot á vopnalögum.

Bifreið stöðvuð í hverfi 101 skömmu eftir miðnætti eftir að bifreiðinni hafði verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis.

Um eitt í nótt var bifreið stöðvuð í hverfi 104.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis.

Á fjórða tímanum í nótt urðu lögreglumenn vitni að umferðaróhappi í hverfi 101 þar sem bifreið er bakkað á aðra kyrrstæða.  Tjónvaldur er grunaður um ölvun við akstur og voru rúður á bifreið hans ísaðar og útsýni því lítið.

Síðdegis í gær var bifreið stöðvuð í Garðabæ og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og aka sviptur ökuréttindum.

Ekið var á lögreglubifreið í Hafnarfirði um eitt í nótt og er tjónvaldur grunaður um ölvun við akstur og akstur sviptur ökuréttindum. Tjónvaldur er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert