Ekkert óeðlilegt að ræða dóminn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðustól Alþingis í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ræðustól Alþingis í dag. mbl.is/Hari

„Ég lít ekki svo á að þeir hæstvirtir ráðherrar sem hafa tjáð sig um þessi mál og hafa viðrað uppi sjónarmið um inntak þessa dóms séu með því að tala Mannréttindadómstólinn niður. Ég held einmitt að við þurfum að leyfa okkur að geta átt samtal um það hvaða mat við leggjum á rökstuðning og það er ekkert óeðlilegt við það.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í síðustu viku þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara í Landsrétt. Katrín brást þar við þeim orðum Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, að ákveðnir ráðherrar hefðu talað niður Mannréttindadómstólinn.

Varðandi dóminn sagði Katrín enn fremur: „Það var orðað á þann veg við mig í gær að hann væri mjög framsækinn í þeirri merkingu að hann er fordæmalaus, hann fer aðra leið en við höfum áður séð. Þá er mikilvægt að við gefum okkur þetta svigrúm til að eiga það samtal. Erum við sammála þeim röksemdum sem þarna eru undir og er þetta af þeim orsökum mál sem væri eðlilegt að skjóta áfram til efri deildar Mannréttindadómstólsins? Ég held að við eigum að gefa okkur það svigrúm að geta rætt það.“

Full ástæða til að skoða minnihlutaálit

Forsætisráðherra gerði einnig minnihlutaálit Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu að umtalsefni og sagði fulla ástæðu til þess að skoða það gaumgæfilega eins og annað í þeim efnum. „Ég er þeirrar gerðar að mér finnst það kalla á að stjórnmálin taki það til skoðunar þegar um er að ræða minnihlutaálit, þó að það séu bara tveir sem tefla fram öðrum sjónarmiðum. Ég held að réttarsagan sýni okkur að það er skylda okkar að horfa til þeirra líka. Niðurstaðan er hins vegar alveg klár.“

Helga Vala hafði sagt að engin ástæða væri til þess að einblína á minnihlutaálit í umræðum um málið. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gerði einnig gagnrýni ráðherra á dóm Mannréttindadómstólsins að umtalsefni í umræðunni og spurði Katrínu hvort hún væri sammála þeim málflutningi. Þar hefði ekki aðeins verið rætt um viðkomandi dóm Mannréttindadómstólsins heldur dómstólinn sem slíkan. 

„Ég held hins vegar að það sé allt í lagi að ræða það sem kemur fram í téðu minnihlutaáliti, ekki að ég sé orðin einhver sérstakur talsmaður þess álits, mér finnst bara mikilvægt að við vegum það og metum líka í allri þessari umræðu. Þar er einmitt rætt um það hversu langt er við hæfi að ganga gagnvart rétti viðkomandi landa af hálfu Mannréttindadómstólsins. Það er umræðan sem er tekin til skoðunar þar. Mér finnst ekkert að því, og það var það sem ég var að segja í minni ræðu, að við ræðum það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert