Von á nýrri skýrslu frá innri endurskoðun

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi sagði nýja skýrslu innri endurskoðenda sýna mikla …
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi sagði nýja skýrslu innri endurskoðenda sýna mikla eyðslu umfram áætlun við fjögur verkefni borgarinnar. mbl.is/Eggert

„Eigum við eitthvað að ræða skýrslu innri endurskoðanda sem var birt í borgarráði síðastliðinn fimmtudag þar sem fjögur verkefni voru fram úr sem nemur heilum bragga? Fimm verkefni upp á milljarð,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í borgarstjórn í gærkvöldi þegar umræður um myglu í skólum borgarinnar sneru að forgangsröðun fjármuna og viðhaldi bygginga.

Miðað við orð Vigdísar má gera ráð fyrir að í skýrslunni, sem ekki hefur enn verið gerð opinber, séu tekin fyrir fjögur verkefni Reykjavíkurborgar sem hafa farið fram úr áætlun í sambærilegum mæli og hinn margumtalaði Braggi, sem kostaði borgina um 450 milljónir króna.

Heimildir mbl.is herma að skýrslan sem um ræðir verði kynnt fimmtudag í næstu viku, að því gefnu að dagskrá borgarráðs taki ekki breytingum.

Kom fram vegna umræðu um myglu

Umræður í borgarstjórn stóðu lengi í gærkvöldi og var síðasta mál á dagskrá myglutilfelli í skólum borgarinnar, sérstaklega í Fossvogsskóla. Sakaði Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, meirihlutann um að hafa ekki forgangsraðað í viðhald bygginga borgarinnar. Nefndi hann einnig að meirihlutinn hefði sérstaklega varið fé í „gæluverkefni“.

Þessu svaraði Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, og sagði að skorið hafi verið niður í kjölfar hrunsins, en undanfarið hafi verið varið mun meiri fé í viðhald.

„Ég held það kæmi borgarfulltrúum á óvart listinn yfir gæluverkefni sem farið var í í kjölfar hrunsins, hann væri ekki langur og ekki feitur,“ sagði Heiða Björg.

Vigdís tók þá til máls og sagði borgina hafa sparað sér til tjóns. „Svo er verið að tala hér um það að ekki hafi verið farið í nein gæluverkefni,“ sagði hún og vísaði til Braggans og umræddrar skýrslu.

Skýrslan trúnaður

Kom Heiða Björg þá í ræðustól þar sem hún benti á að skýrslan sem Vigdís nefndi hafi verið rædd í trúnaði í borgarráði og gæti hún því ekki tjáð sig um þau mál fyrr en skýrslan hefði verið gerð opinber.

Fyrir sitt leyti sagðist Vigdís ekki hafa rætt innihald skýrslunnar þar sem vel þekkt sé hvaða verkefni er um að ræða og nefndi Mathöllina á Hlemmi sem dæmi.

Þegar hefur komið fram að Mathöllin á Hlemmi hafi kostað 308 milljónir króna, en áætlun gerði ráð fyrir 107 milljónum vegna verkefnisins. Þrenging og gerð hjólastíga á Grensásvegi kostaði 30 milljónum meira en áætlað var og loks kostuðu breytingar á Sundhöllinni 1,65 milljarða króna, sem er um 350 milljónum meira en gert var ráð fyrir.

Samtals eru þetta um 580 milljónir króna.

Reynt var að hafa samband við Vigdísi við vinnslu fréttarinnar til þess að leita frekari skýringa og staðfestingar á því að fyrrnefnd verkefni séu þau sem skýrslan taki til, en án árangurs.

mbl.is