Segir laun seðlabankastjóra hafa setið eftir

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í umsögn sinni að laun seðlabankastjóra …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í umsögn sinni að laun seðlabankastjóra hafi ekki hafa verið lægri í samanburði við laun ráðherra og æðstu embættismanna í áratugi. mbl.is/Árni Sæberg

Laun seðlabankastjóra hafa ekki hafa verið lægri í samanburði við laun ráðherra og æðstu embættismanna í áratugi. Þetta kemur fram í umsögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, sem lagt var niður síðasta sumar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að laun seðlabankastjóra, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins verði fryst til 1. janúar á næsta ári. 

Már gerir athugasemd við þetta og bendir á að laun þessara aðila hafi verið „hækkuð verulega á árunum 2015 og 2016, eftir að þau höfðu verið tekin til sérstakrar skoðunar hjá kjararáði. Sérstök skoðun á launum seðlabankastjóra átti sér hins vegar síðast stað árið 2012 og hækkuðu laun hans þá um 7%,“ segir í athugasemdunum.

„Laun seðlabankastjóra hafa ekki verið lægri í samanburði við laun ráðherra og æðstu embættismanna í a.m.k. áratugi en þau hafa verið síðustu ár.“

Háð sögulegri tilviljun ekki faglegu mati

Sú spurning vakni því hvort eðlilegt sé að horfa til þess í sambandi við áform um frystingu launa seðlabankastjóra. Bendir Már á að kjararáð hafði, áður en það var lagt niður, leitað eftir gögnum hjá Seðlabankanum og hafið skoðun á launum seðlabankastjóra sem síðast hafi hækkað árið 2016.

Enn fremur nefnir Már að verði laun seðlabankastjóra fest í þeirri krónutölu sem frumvarpið gerir ráð fyrir þá verði þau „eðli máls samkvæmt háð sögulegri tilviljun en ekki faglegu mati á mikilvægi embættanna né samhengi við launaþróun síðustu ára“.

Laun seðlabankastjóra hafi ekki tekið kjarasamningsbundnum launahækkunum á tímabilinu og hafi setið eftir, hvort sem miðað sé við laun embættismanna sem nú á að frysta eða almenna launaþróun. 

Einu kjararáðsákvörðuðu launin sem yrðu lækkuð

Þá gerir Már athugasemd við að í frumvarpinu sé einnig lagt til að laun aðstoðarbankastjóra verði lækkuð þannig að laun hans verði 90% af launum seðlabankastjóra og yrðu þar með einu kjararáðsákvörðuðu launin sem yrðu lækkuð.

Þetta segir seðlabankastjóri ganga illa upp og gæti skapað vandamál við að manna stöður varaseðlabankastjóra „verði þær hugmyndir sem nú er verið að vinna með varðandi sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að lögum“.

mbl.is

Bloggað um fréttina