Segja málflutning Ásmundar rangan og villandi

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Málflutningur Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag var bæði rangur og villandi, segir í yfirlýsingu Öryrkjabandalags Íslands sem segir sorglegt að hlýða á fullyrðingar um að ÖBÍ leggist gegn afnámi krónu-á-móti krónu skerðingarinnar. 

Ásmundur sagði í ræðu sinni að á sama tíma og Öryrkja­banda­lagið ætli í mál við ríkið vegna skerðinga þá hafi það og Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, þingmaður Flokks fólks­ins, hafnað afnámi krónu-á móti-krónu skerðingu. Var Ásmundur þar að vísa til ummæla Guðmundar Inga á þingi í gær, er hann kallaði skerðing­ar á kjör­um ör­yrkja upp á krónu á móti krónu „fjár­hags­legt of­beldi“.

„Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar er ein af þeim úrbótum sem hægt er að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum ljúki. Þessi afstaða ÖBÍ hefur lengi verið ljós. Henni hefur verið haldið fram gagnvart stjórnvöldum og almenningi um margra ára skeið,“ segir í yfirlýsingu ÖBÍ. 

Núverandi ríkisstjórn ríghaldi í kröfu um „að þessi óréttláta skerðing, sem tæplega verður kölluð annað en kerfisbundið ofbeldi, verði ekki afnumin nema ÖBÍ fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og breiði faðminn á móti nýju framfærslukerfi almannatrygginga.“ 

Segir ÖBÍ í ljósi þessa það vera „sérstaklega sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis í dag þar sem ÖBÍ er beinlínis sagt leggjast gegn afnámi krónu-á-móti krónu skerðingarinnar“.

Krónu-á-móti-krónu skerðingu eigi að afnema strax án tillits til annarra breytinga. Hún ein og sér haldi þúsundum fjölskyldna í fátæktargildru og því eigi að afnema hana eina og sér, en ÖBÍ undirbýr nú málsókn á hendur ríkinu í því skyni að aflétta þessu kerfisbundna ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert