Endurgreiðsla flugmiða ekki sjálfgefin

mbl.is/Eggert

Fari flugfélag í gjaldþrot geta kaupendur farmiða snúið sér til greiðslukortafyrirtækisins sem tók við greiðslunni og óskað endurgreiðslu. Gangi sú leið ekki mun farmiðinn mynda kröfu í þrotabú félagsins.

Þetta segir Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.

Endurgreiðsluréttur flugfarþega sé tíundaður í reglugerð sem Samgöngustofa, líkt og önnur flugmálayfirvöld í Evrópu, vinnur eftir.

Tilefnið er mikil óvissa um afdrif WOW air. Vegna þeirrar óvissu hafa tvær þotur félagsins verið kyrrsettar.

Sé flugmiði greiddur með greiðslukorti með góðum fyrirvara, og því búið að greiðslufæra kaupin, getur verið of seint að endurgreiða miðann. Á það ber að benda að reglur greiðslumiðlana geta verið mismunandi í þessu efni.

Alferð tryggir annað flug

Þórhildur bendir á að ef keypt hefur verið alferð með ferðaskrifstofu beri skrifstofunni að útvega farþegum nýtt flug. Alferð er samansett af a.m.k. tveimur eftirfarandi atriðum: flutningi, gistingu og annarri þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.

Þórhildur segir aðspurð að íslenska ríkið ábyrgist ekki að koma flugfarþegum heim til Íslands ef flugfélag fer í þrot. Það þurfi að koma til sérstök ákvörðun stjórnvalda til að slíkt flug sé tryggt.

Gildir aðeins fyrir alferð

Á vef Samgöngustofu er að finna spurningar og svör vegna gjaldþrots flugrekanda.

Ein spurningin er hvort flugrekendur ábyrgist að farþegar sem staddir eru erlendis komist heim sér að kostnaðarlausu, sem og endurgreiði þeim sem greitt hafa farmiða að fullu, eða að hluta, sé ferð ófarin.

Svarið er nei. „Skyldutrygging sú sem skilyrði er fyrir ferðaskrifstofuleyfi gildir eingöngu ef keypt hefur verið alferð. Geti flugrekandi ekki innt af hendi samningsskuldbindingar sínar vegna greiðslustöðvunar eða gjaldþrots, er farþegum bent á að hafa samband við greiðslukortafyrirtæki sitt hafi ferð verið greidd með greiðslukorti,“ segir í svarinu.

Þórhildur segir aðspurð að Samgöngustofa muni koma á framfæri upplýsingum ef til gjaldþrots flugrekenda kemur.

„Ef slíkar aðstæður kæmu upp myndu allir hlutaðeigandi, og þeir sem hafa mögulega aðkomu að, leggjast á eitt til þess að reyna að reyna lágmarka glundroða vegna slíks. Það verður reynt að miðla upplýsingum ef þessar aðstæður kæmu upp,“ segir Þórhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert