Funduðu með forsætisráðherra

Mótmælendur krefjast aðgerða í loftslagsmálum strax.
Mótmælendur krefjast aðgerða í loftslagsmálum strax. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipuleggjendur loftslagsverkfallsins hér á landi funduðu í dag með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðshúsinu. Á fundinum var farið yfir kröfurnar sem liggja að baki verkfallinu sem eru fyrst og fremst auknar og metnaðarfyllri aðgerðir strax og aukin fjárútlát til loftslagsmála. 

Loftslagsverkfall hefur nú staðið yfir hér á landi fimm föstudaga í röð á milli klukkan 12 og 13. Töluverður fjöldi fólks hefur sótt verkfallið í öll skiptin, að megninu til börn á grunnskólaaldri. Í alheimsverkfallinu 15. mars söfnuðust rúmlega 2.000 manns á Austurvelli, Akureyri og Akranesi og kröfðust aukinna aðgerða.

Fram kemur í tilkynningu að verkfalið muni halda áfram hvern einasta föstudag þar til raunverulegur vilji til breytinga sjáist.

Fulltrúar verkfallsins lögðu fram tillögur við forsætisráðherra að því hvernig væri unnt að uppfylla hlut ríkisstjórnar í því markmiði að ná 2,5% af landsframleiðslu í málaflokkinn sem og tillögur að aðgerðum sem mætti innleiða til þess að leggja atvinnulífinu línurnar í loftslagsmálum.

Fram kemur í tilkynningu frá Landssamtökum íslenskra stúdenta að Katrín hafi tekið vel í erindið og gott samtal hafi átt sér stað um möguleika ríkisstjórnarinnar til að ná markmiðunum og hvernig Ísland hafi tekið þátt í umræðum um loftslagsbreytingar á alþjóðavettvangi.

Fulltrúar verkfallsins bíða nú eftir fundarboði frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, en einnig er stefnt að fundum með atvinnulífi og sveitarfélögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert