Vilja umbreyta skuldum

Kröfuhafar og skuldabréfaeigendur WOW air funduðu í þriðja sinn í gærkvöldi. Markmiðið var að afla nægilega margra undirskrifta vegna áætlunar um að umbreyta skuldum í 49% hlutafjár. Fulltrúi skuldabréfaeigenda sagði söfnunina hafa gengið vel. Þó hafði ekki tekist að afla tilskilins fjölda þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Taldi heimildarmaðurinn að það tækist í dag. Það tefur söfnunina að fylgja þarf ströngum verkferlum. Munnlegt samþykki dugir ekki. „Það er verið að fá menn til að kvitta undir viljayfirlýsingu. Næsta skref er að fá menn til að undirrita lagalega bindandi samninga um þessa áætlun,“ sagði heimildarmaðurinn.

Fyrsti fundurinn fór fram á laugardag. Um 40 hagsmunaaðilar sitja við borðið. Erlendir aðilar eru í þeim hópi. Ekki stendur til að umbreyta skuld WOW air við Isavia í hlutafé. Viðræður við Isavia eru ekki hafnar.

Ætlunin er að fá fjárfesti, eða hóp fjárfesta, til að kaupa 51% hlut í félaginu fyrir 5 milljarða. Ef áætlunin verður samþykkt munu kröfuhafar ræða við fjárfesta um kaupin. Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, verður þá einn margra hluthafa en ekki lengur ráðandi í viðræðum.

Spá gengisfalli og verðbólgu

Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að krónan muni veikjast ef WOW air hverfur af markaði.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur á hagfræðideild Landsbankans, segir að gjaldþrot WOW air hefði svo mikil áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins að krónan myndi án efa gefa töluvert eftir.

„Til að koma á nýju jafnvægi í utanríkisviðskiptum þyrfti krónan að gefa töluvert eftir. Hversu mikið verður að koma í ljós,“ segir Gústaf. Hann telur ekki ólíklegt að gengi krónunnar fari upp í a.m.k. 150 krónur fyrir hverja evru en gengið er nú um 136-137 krónur. Það yrði um 10% veiking.

Samkvæmt útreikningum Reykjavík Economics myndi slík veiking leiða til þess að verðbólga ykist um 3,3%. Verðbólgan er nú 3%. Gangi spá Landsbankans eftir myndi verðbólgan því að óbreyttu fara yfir 5% í fyrsta sinn frá sumrinu 2012.

Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics, segir aðspurður ekki ólíklegt að gengi krónu muni veikjast um 5-10% með brotthvarfi WOW air.

Verðbólgan muni að óbreyttu fara í 5-6%. „Þetta ræðst líka af því hvernig kjarasamningar fara. Ef laun hækka langt umfram innistæðu og hagnaður fyrirtækja dregst saman gætum við séð víxlverkun launa og verðlags, líkt og á 9. áratugnum,“ sagði Magnús. Með því mundi kaupmáttarstyrking síðustu ára ganga til baka, þrátt fyrir launahækkanir, líkt og gerðist á 9. áratugnum.

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, tekur undir þetta og bendir á þátt ferðaþjónustunnar í styrkingu krónunnar. Með lækkandi þjónustutekjum séu horfur á veikari krónu og þá minni kaupmætti. Það sé ekkert nýtt – hagur þjóðarinnar hljóti að ráðast af gengi útflutningsatvinnuveganna.

Gæti fjölgað ferðamönnum

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Greiningar Íslandsbanka, telur hins vegar ekki horfur á mikilli gengisveikingu vegna mögulegs samdráttar í flugi til Íslands.

Þá bendir hann aðspurður á að gengisveiking geti haft þau áhrif að hækka hlutfall tengifarþega sem kjósa að koma inn í landið. „Það gæti fljótlega skilað sér í töluverðri fjölgun ferðamanna. Af því að það er af stóru mengi að taka,“ segir Jón Bjarki.

Í greiningu sem Morgunblaðið hefur undir höndum eru dregnar upp þrjár sviðsmyndir þar sem lagt er mat á hver áhrif rekstrarstöðvunar WOW air gætu orðið á þá farþega sem eiga bókað far með vélum félagsins eftir því hvenær dags sú stöðvun ætti sér stað. Þannig yrðu um 1.500 farþegar strandaglópar á Íslandi og um 500 Íslendingar fastir erlendis ef stöðvunin ætti sér stað snemma morguns. Þá gæti tekið um tvo daga að koma erlendum ferðamönnum héðan, en allt að fimm til sex daga að fá þá Íslendinga sem væru fastir úti heim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »